139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

skýrsla um endurreisn bankanna.

[10:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Nei, frú forseti, þvert á móti gekk þessi flókna og viðamikla aðgerð vel. Niðurstaðan varð hagstæð fyrir ríkissjóð sem og fyrir íslenskt efnahagslíf.

Í fyrsta lagi vil ég segja um skýrsluna að sú kenning hefur komið upp að henni hafi verið laumað inn á Alþingi. Ég hef varla heyrt annan eins málflutning. Skýrslan var kynnt í ríkisstjórn og lögð fram á Alþingi sama dag og er í höndum þingsins eftir það. Hún fór á vef Alþingis í framhaldinu og glöggir blaðamenn byrjuðu að fjalla um skýrsluna strax, t.d. blaðamenn Viðskiptablaðsins, þannig að þingmenn sem uppgötvuðu hana ekki fyrr en þremur vikum síðar hafa ekki við aðra að sakast en sjálfa sig.

Í öðru lagi byggir sá málflutningur sem upp hefur komið að undanförnu á grundvallarvanþekkingu á eðli þessa máls. Þegar talað er um að stefnubreyting hafi orðið af hálfu ríkisstjórnar er það misskilningur. Hv. þingmenn þurfa ekki annað en að lesa neyðarlögin. Fjármálaeftirlitinu eru þar færð hin víðtæku völd til að ráðstafa eignum bankanna. Stjórnvöld, þ.e. ríkisstjórn, hafa ekki þau völd þannig að allt tal um stefnubreytingu af hálfu ríkisstjórnar eða ríkisstjórna er byggt á grundvallarvanþekkingu og það er hv. þingmönnum ekki til sóma að kynna sér ekki málin áður en þeir fara fram með ásakanir af því tagi sem uppi hafa verið undanfarna daga þótt þá langi mikið í æru og höfuð einstakra manna. [Kliður í þingsal.]

Í þriðja lagi var niðurstaðan bersýnilega mjög hagstæð fyrir ríkissjóð miðað við upphaflegar áætlanir og ef ríkið hefði þurft að leggja fram 385 milljarða í eigið fé hefði vaxtakostnaðurinn orðið 46 milljörðum meiri á árunum 2009 og 2010 (TÞH: 406.) og sannarlega sparar eiginfjárframlag skilanefndanna í Arion og Íslandsbanka yfir 20 milljarða í vaxtakostnað á árunum 2009 og 2010.

Í fjórða og síðasta lagi, frú forseti, verð ég að segja að það er mikill ábyrgðarhlutur af hálfu þingmanna að halda því fram við almenning sem berst við þungar skuldir að eitthvað hafi verið hægt sem ekki var hægt. Það er augljóst mál (Forseti hringir.) að gjörningurinn varð að standast, annaðhvort á grundvelli samkomulags eða fyrir dómi, og það er ekki hægt að færa eignir undan búum með stjórnvaldsákvörðun. (Forseti hringir.) Það mundi aldrei halda vatni fyrir dómstólum. [Kliður í þingsal.]