139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs af því að mig hefur undrað vinnulag þingsins upp á síðkastið. Hér hafa menn með langa þingreynslu sagt okkur til með ýmsum hætti í morgun. Sumir eiga að fara að taka róandi lyf og aðrir að vera undir það búnir að vera hér í vinnu allan sólarhringinn.

Ég hélt að verkefni okkar hér væri að vanda löggjafarvinnuna. Ég hélt satt best að segja að ef klára hefði átt frumvörp á vorþingi hefðu þau átt að koma inn fyrir 1. apríl eða þá skömmu síðar ef það hefði eitthvað tafist, það væri liður í því að vanda vinnubrögðin.

Ég hélt líka að það væri liður í því að auka sjálfstæði þingsins að það þjónkaði ekki framkvæmdarvaldinu með einum eða öðrum hætti. Nú þarf að liggja fyrir með hvaða hætti við ætlum að ljúka þingstörfum. Á það að vera á verksviði framkvæmdarvaldsins (Forseti hringir.) sem hér kemur inn og ætlast til þess að allt í einu, einn, tveir og þrír, fái einhver mál flýtimeðferð á átta dögum eða ætlum við að (Forseti hringir.) fara að vanda verk okkar, frú forseti?

(Forseti (ÁRJ): Og virða tímamörk.) (Gripið fram í: Það er rétt.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á að ræðutíminn er ein mínúta undir þessum lið.)