139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við heyrðum hér gamlar tuggur um sérhagsmunakerfi og ágreining um hitt og þetta, svona lítið sem á sér stoð í raunveruleikanum þegar reynt er að ræða málefnalega um svo mikilvægan málaflokk sem við ræðum um. Sjálfstæðismenn eiga ekki heiðurinn af því að þetta mál skuli ekki vera komið fyrr á dagskrá, það eru auðvitað ríkisstjórnarflokkarnir sem hafa staðið sig afspyrnulélega í þessu máli eftir að sáttanefndin lauk störfum síðastliðið haust og verið að myglast með málið fram eftir öllum vetri og með þeim árangri sem raun ber vitni.

Mig langar að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar: Hver voru markmið fiskveiðistjórnarkerfisins? Hver var staða hrygningarstofnsins í þorski og hver er hún í dag? Hver var fjöldi báta og hver er hann í dag? Hann hlýtur að vita þetta, maður sem talar af svona mikilli innlifun um þetta mál.