139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, strandveiði, aflamark, samstarf, tekjur af veiðigjaldi og tímabundin ákvæði.

Strandveiðar hófust sumarið 2009 og tóku lögin gildi 19. júní 2009 og voru síðan styrkt síðasta vor með lögum nr. 32/2010, sem voru einnig breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Með strandveiðum hefur náðst mikill árangur í að treysta og efla búsetu og atvinnu í sjávarbyggðum víðs vegar um landið. Víða um land getur atvinna oft verið árstíðabundin og sveiflukennd og það að mönnum gefist kostur á að skapa sér vinnu yfir sumartímann mætir þörfum fjölda fjölskyldna sem sjá fram á að geta aflað sér aukinna atvinnutekna og treyst betur grundvöll þess að búa áfram í sinni heimabyggð.

Frumbyggjarétturinn er sá réttur sem er einn hluti af mannréttindum í mannréttindakafla Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur úrskurðað að Ísland hafi brotið mannréttindi við úthlutun kvótans í núverandi kvótakerfi. Með auknum hlut til strandveiða og í byggðatengdum aðgerðum erum við að mæta þeim réttmæta úrskurði og koma til móts við kröfuna um jafnræði og atvinnufrelsi í greininni. Sjávarbyggðir landsins hafa orðið til og byggst upp vegna nálægðar við gjöful fiskimið. Allir innviðir samfélagsins byggjast á þeim grunni og leiða til þess að þjónusta við greinina og önnur afleidd störf geti skapast. Þegar þessi grunnur er til staðar skapast möguleikar á að byggja upp fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri og að efla og styrkja velferðarþjónustu, menntunarmöguleika og alla grunngerð samfélagsins.

Við höfum ekki efni á því sem þjóð að öll sú fjárfesting sem liggur í mannauði og mannvirkjum í sjávarbyggðunum litlum sem stórum sé vannýtt eða afskrifuð vegna þeirra óheftu lögmála markaðarins sem bitnað hafa illa á mörgum íbúum sjávarplássa þegar útgerðaraðilar selja sig út úr greininni eða flytja á milli landshluta. Fiskvinnslukonan, sjómaðurinn, vélsmiðurinn, kaupmaðurinn og allt samfélagið hefur átt sinn þátt í því að byggja upp og þjónusta sjávarútveginn og á kröfu á að tilviljanakenndar geðþóttaákvarðanir ráði ekki einar för um það hvar veiðar og vinnsla eru staðsettar hverju sinni og geti þar með skilið heilu samfélögin eftir á köldum klaka. Samfélagsleg ábyrgð kemur á undan óheftum lögmálum markaðarins í mínum huga og ég vona að svo sé um fleiri.

Þetta frumvarp kemur til móts við þau sjónarmið og örvar og styrkir atvinnustarfsemi fjölda sjávarbyggða. Það hefur reynsla sýnt og sannað og í mörgum höfnum landsins þar sem áður ríkti doði og athafnaleysi iðar nú allt af lífi og bjartsýni.

Í frumvarpi þessu eru mikilvægar breytingar á núverandi löggjöf um stjórn fiskveiða en annað frumvarp sem liggur fyrir Alþingi gerir ráð fyrir grundvallarbreytingum á fiskveiðistjórnarlögunum og mun það taka á framsali, veðsetningu, lengd nýtingarsamninga aflaheimilda og möguleikum á nýliðun í greininni, leigu ríkisins á aflaheimildum og byggðatengdum aðgerðum og að lokum sameign þjóðarinnar, sjávarauðlindinni, að það sé skýrt og treyst í lagatexta skýr eign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni.

Í frumvarpi þessu eru gerðar nokkrar breytingar á tilhögun strandveiða þar sem heimilt er að ákveða flokk smærri báta og að aukning aflamarks í strandveiðum geti runnið til flokks minni skipa með strandveiðileyfi. Þetta ákvæði stuðlar að meiri aðgangsjöfnuði milli stórra og öflugra strandveiðibáta annars vegar og lítilla báta í þeim flokki. Einnig er heimilt að skipta leyfilegum heildarafla á tímabil í stað mánaða og gerð er krafa um að eigandi sé lögskráður á bát. Í því skyni er áréttað að einungis er heimilt að veita hverri útgerð, einstaklingi eða lögaðila eitt leyfi til strandveiða. En það var aldrei tilgangurinn með strandveiðum að sami aðilinn væri með marga báta í rekstri heldur hefði einstaklingur möguleika á að skapa sér eigin atvinnu.

Lögð er til jöfnunaraðgerð til ívilnana og uppbóta og sett fram tillaga um sanngjarnara fyrirkomulag þessara tilfærslna með því að miða útreikning á þeim út frá heildarþorskígildum en ekki úthlutana í þeim fjórum fisktegundum sem um ræðir. Þar með munu allir aflamarkshafar svo sem í uppsjávartegundum taka þátt í að leggja til hluta í ýmiss konar jöfnunaraðgerðir og er því um mikið jafnræðismál að ræða. Gerð er breyting á tegundatilfærslu úr tegund þannig að hún geti mest orðið 30% en það er þekkt að sumar tegundir eru mikið nýttar til tilfærslna umfram aðrar. Dæmi eru um að allt að 80% af heildaraflamarki slíkra tegunda sé ekki veitt en í þess stað breytt í aðra tegund. En tegundatilfærslur eru þó nauðsynlegar vegna meðafla og til að koma í veg fyrir brottkast.

Gert er ráð fyrir að heimilt verði að skipta svokölluðum VS-afla niður á tímabil og er þar með komið til móts við kröfu samtaka sjómanna en mikil óánægja hefur verið með að vissar útgerðir hafa safnað meðaflaheimildum til loka fiskveiðiársins en það samræmist ekki þeim markmiðum sem heimildin byggist á. Tekjur af heimiluðum VS-afla skiptast á milli Verkefnasjóðs sjávarútvegsins, útgerða og sjómanna samkvæmt samningum og hefur núverandi fyrirkomulag oft komið niður á tekjum sjómanna síðari hluta fiskveiðiársins.

Lagðar eru til breytingar á veiðigjaldinu og það hækki á næsta fiskveiðiári úr 9,5% í 16,2%. Hefði þessi hækkun komið til á þessu fiskveiðiári hefðu tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi orðið 2 milljörðum meiri en þær eru í dag. Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að fjórir fimmtu hlutar af veiðigjaldi renni í ríkissjóð en einum fimmta hluta tekna verði ráðstafað til sveitarfélaga. Með því er komið til móts við þau sjónarmið að eðlilegt sé að sjávarbyggðir njóti sanngjarns hluta af arðinum af auðlindinni. Nánari útfærslu finnst mér að eigi að skoða betur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd en þetta ákvæði tekur gildi 1. september 2011.

Gert er ráð fyrir að hámarksheimild til ráðstöfunar afla í byggðatengingar aukist um 5 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári og verði samtals 17 þúsund tonn það ár. Sveitarstjórnum er gefinn kostur á að velja á milli úthlutunarreglna ráðuneytisins eða nýs fyrirkomulags sem felur í sér skilyrði um að sveitarstjórn sem úthlutar aflaheimildum til útgerðaraðila geri þá skilyrðislausu kröfu til útgerðar að hún eigi þar heimilisfesti og að aflanum sé landað þar til vinnslu. Slíkt fyrirkomulag gefur sveitarstjórnum ákveðið svigrúm til að stuðla að byggðastyrkingu, nýliðun og stuðningi við kvótalitlar útgerðir eða t.d. að mæta meðaflavanda útgerða. Gerð er skýr krafa til sveitarstjórna um gagnsæi, jafnræði og málefnaleg sjónarmið við úthlutun aflaheimilda. Útgerðir sem fá þessar heimildir er óheimilt að framselja þær.

Með breytingum sem gerðar hafa verið á fiskveiðilöggjöfinni hefur verið veitt sérstök heimild til úthlutunar á aflaheimildum í skötusel fyrir fiskveiðiárin 2009/2010 og 2010/2011. Þykir framkvæmd þessi hafa tekist vel til og lagt er til í frumvarpinu að heimilt verði að úthluta ákveðnu magni af skötusel, einnig á íslenskri sumargotssíld til skipa sem hafa veiðileyfi. Þar með er mætt meðaflaþörf við makrílveiðar og opnaðir eru möguleikar strandsvæða til að nýta síldina, m.a. til beitu.

Útgerðir greiða gjald fyrir aflaheimildirnar og greiða einnig veiðigjald. Tekjur af sölu aflaheimilda renna í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs með það að markmiði að stuðla að rannsóknum og nýsköpun í sjávarbyggðum.

Gerð er tillaga um sérstaka meðferð á meðafla í keilu og löngu í eitt ár og tekur aðgerðin mið af framkvæmd á veiðum VS-afla. Með því móti er gefinn nauðsynlegur sveigjanleiki hvað varðar meðafla í keilu og löngu og þar með dregið úr hvata til brottkasts.

Gert er ráð fyrir að hámarksheimild til ráðstöfunar afla til strandveiða hækki úr 6 þúsund tonnum í 9 þúsund tonn af botnfiski strax á þessu fiskveiðiári og að það haldist á því næsta. Viðbótaraflamagnið sem ráðstafað er með þessum hætti til strandveiða og til stuðnings byggðarlögum skal ekki koma til frádráttar aflamarki.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi en ákvæði 1.–6. gr. koma þó ekki til framkvæmda fyrr en á næsta fiskveiðiári sem hefst 1. september 2011. En það er gífurlega mikilvægt fyrir sjávarbyggðir landsins að fá þá miklu aflaaukningu sem frumvarpið gerir ráð fyrir í strandveiðum strax á þessu fiskveiðiári. Það munar um 3 þúsund tonn af botnfiski í hagkerfi sjávarplássanna og margfeldisáhrifin skila sér strax út í samfélagið. Ég geri ráð fyrir að það hljóti að vera kappsmál allra þingmanna að koma þessu atvinnuskapandi frumvarpi hratt og vel í gegnum þingið svo það megi öðlast gildi á þessu vorþingi.

Atvinnuleysi er böl hverrar þjóðar og aðgerðir sem snúa að fjölgun starfa og byggjast á vistvænum veiðum á grunnslóð og styrkingu á afkomuöryggi sjávarbyggðanna hljóta að vera kærkomnar þingi sem þjóð á þessum erfiðu tímum. Það er einnig mjög mikilvægt að væntanleg aflaaukning deilist ekki sjálfkrafa á núverandi handhafa aflaheimilda og að ráðstafa megi henni með öðrum hætti. Þetta frumvarp er þjóðþrifamál og áframhaldandi skref til aukins réttlætis og jafnræðis í nýtingu sameiginlegra fiskstofna þjóðarinnar.