139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:54]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er að reyna að átta mig á áliti hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar á því frumvarpi sem verið er að ræða, þ.e. hugmyndafræðinni sem þar er á bak við, ekki endilega útfærsluatriðum, og mig langar til að beina til hans nokkrum spurningum. Það er t.d. um svokallaðan VS-afla sem við báðir vitum hver er. Telur þingmaðurinn ekki ástæðu til að endurskoða þær leikreglur sem eru í gangi þar?

Sama um tegundatilfærslu þegar fyrir liggur að sumar tegundir hafa verið notaðar allt upp í 80% til að breyta yfir í aðrar fisktegundir. Telur þingmaðurinn ekki ástæðu til að taka til í þeim ranni?

Varðandi pottana var það samdóma niðurstaða þess hóps sem gaf út þessa fínu skýrslu hér að það ætti að fara svokallaða samninga- og pottaleið, þ.e. að hægt sé að skilgreina þetta í tvennt með tilteknum hætti. Er þingmaðurinn andsnúinn því eða er þetta fyrst og fremst útfærsluatriði sem hv. þingmaðurinn er að agnúast út í? Felst hann á þá hugmyndafræði sem þarna kemur fram?