139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem komið hafa fram hjá hv. þingmönnum um slaka viðveru stjórnarþingmanna. Kallað hefur verið eftir því að forsætisráðherra mæti hér og upplýsi þingmenn um skoðanir sínar. Það liggur hins vegar fyrir að hæstv. forsætisráðherra ætlar ekkert að ræða þetta mál fyrr en í sumar, sennilega verðum við að bíða þangað til að heyra skoðanir hennar á því efni sem hér liggur fyrir. Væntanlega er hún að undirbúa sumarfríið en viðvera annarra stjórnarþingmanna er þeim lítt til sóma. Það væri gagnlegt fyrir alþjóð, og þá sem á þessa umræðu hlýða, að heyra skoðanir frá öðrum en þeim ágætu hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra sem hér hafa komið fram. Við vitum nefnilega að skoðanir eru mjög skiptar meðal stjórnarliða um þetta mál. Væntanlega sitja þeir þá á rökstólum að reyna að samræma það hvaða sjónarmiðum þeir ætla að koma á framfæri við þessa umræðu.