139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir góða ræðu. Hann fór vel yfir sjávarútvegsmálin og þá hættu sem í frumvörpunum leynist, mikla hættu. Ég var sérstaklega ánægður með söguskýringar og upprifjun hv. þingmanns á því hvernig annar stjórnarflokkurinn, Samfylkingin, hefur haldið á málefnum sjávarútvegsins.

Við vitum að sá stjórnmálaflokkur vill helst hafa sem mestar deilur um þessa atvinnugrein vegna þeirra sjónarmiða sem þar eru uppi og hangir það kannski saman við aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Það er hins vegar sorglegt að fórna helstu atvinnugrein þjóðarinnar á því altari útötuðu í blóði.

Mig langar að fá álit hv. þingmanns vegna þessara orða hans og ekki síður vegna þekkingar hans á áhrifum frumvarpsins á aðrar atvinnugreinar er tengjast óbeint sjávarútvegi. Nú er það þannig að vélsmiðjur og skipasmíðaverkstæði og slík starfsemi á mikið undir sjávarútveginum. Ef ég man rétt kom fram í úttektinni Sjávarklasinn að um 50% — þetta er sagt án ábyrgðar, frú forseti — vélvirkja og vélsmiða eigi í raun allt sitt undir sjávarútveginum. Hvaða áhrif hefur þessi nagandi óvissa sem stjórnarflokkarnir, og sérstaklega Samfylkingin, hafa náð skapa um þetta mál á þær atvinnugreinar? Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort það sé öllu til fórnandi í þessari baráttu Samfylkingarinnar. Ég spyr því: Hvaða áhrif getur sú óvissa sem sköpuð hefur verið haft á aðrar atvinnugreinar og sér í lagi kannski þær sem ég nefndi?