139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina spurningu til hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur. Ég fékk reyndar ekki staðfestingu á því hvort þingmaðurinn gæti svarað mér. Ég vona að svo sé, annars verður þetta væntanlega túlkað bara sem yfirlýsing.

Við höfum séð fréttir og fengið staðfestingu á því að Landsbanki Íslands hefur ákveðið að gera ákveðnar breytingar á lánum viðskiptamanna sinna í þá veru að lækka lánin með ákveðnum hætti, endurgreiða vexti og þess háttar. Það hefur líka komið fram í fréttum að Íbúðalánasjóður telur sig ekki hafa lagaheimildir til að fara sömu leið eða gera svipaða hluti. Því hljótum við að spyrja okkur á síðustu dögum þessa hluta af þinginu hvort ekki sé rétt að veita Íbúðalánasjóði þær heimildir sem hann þarf til að fara sömu leið.

Hugmyndin var að spyrja hv. þingmann hvort þingmaðurinn, formaður félags- og tryggingamálanefndar, hefði hug á að taka það upp í nefndinni að ná í gegn nauðsynlegum lagabreytingum fyrir Íbúðalánasjóð áður en þingi verður frestað fram á haust eða þá að afgreiða eitthvað slíkt í haust. Ég held að það sé mikilvægt að ríkissjóður, í þessu tilfelli Íbúðalánasjóður, gangi helst á undan með góðu fordæmi. Það er náttúrlega ekki lengur í þessu tilfelli en hann getur leitað allra leiða til að vera að minnsta kosti ekki eftirbátur viðskiptabankanna. Ég kalla eftir því að við náum samkomulagi í þinginu um að þessar breytingar verði gerðar þannig að viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs njóti sömu velvildar og viðskiptamenn Landsbankans og svo hvet ég að sjálfsögðu aðra banka til að gera slíkt hið sama.

Margir á þingi hafa talað lengi fyrir því að leiðrétta lán með almennum hætti. (Forseti hringir.) Það er búið að sýna og sanna og staðfesta, m.a. í skýrslu fjármálaráðherra, að það er vel hægt.