139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[12:09]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef hér 3. umr. um frumvarp um breytingu á lögum um opinber innkaup sem viðskiptanefnd hefur haft til umfjöllunar á vormánuðum. Vonandi sjáum við fyrir endann á umfjöllun um málið enda er um brýnt hagsmunamál að ræða. Svo það sé sagt þá kemur hvatinn að þessu máli frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi enda er áhugi á því þar að geta tekið þátt í útboðum í samstarfi við erlend ríki til að ná fram hagstæðara innkaupsverði á lyfjum. Þaðan kemur hvatinn og eftir ítarlega umfjöllun fjármálaráðuneytisins varð til frumvarp sem opnar á þann möguleika, og aðra möguleika, að ríkið geti í gegnum Ríkiskaup tekið þátt í útboðum á erlendum vettvangi og sparað í innkaupsverði.

Viðskiptanefnd hefur fjallað ítarlega um málið og gert á því nokkrar breytingar sem komu fram við 2. umr. málsins. Eftir ítarlega umfjöllun á seinni stigum hefur meiri hluti nefndarinnar tekið undir þá efnislegu athugasemd sem minni hlutinn hefur gert við málið og mun bera fram breytingartillögur þess efnis síðar í dag. Málið var kallað inn til nefndarinnar eftir 2. umr. til að fjalla sérstaklega um stöðu samkeppnismála í ljósi þessa frumvarps. Það er alveg ljóst að frumvarpinu er ætlað að veita heimild til að ná hagstæðum innkaupum þegar erfitt reynist að fá fram samkeppnishæft verð, t.d. vegna skorts á samkeppni og vegna þess að íslenski markaðurinn er of lítill til þess að viðunandi boð berist.

Til að geirnegla að vel sé að málum staðið af hálfu ríkisins munu þrír aðilar þurfa að samþykkja að farið sé í útboð með erlendum aðilum. Í fyrsta lagi þarf kaupandinn sjálfur að óska eftir því við Ríkiskaup að slíkt fari fram og Ríkiskaup þurfa svo að vera sammála því mati og rökstyðja óskina um heimildina til fjármálaráðherra sem þarf sömuleiðis að samþykkja það mat.

Hér er fyrst og fremst verið að horfa á að geta hoggið inn í framlegð erlendra framleiðenda, t.d. hvað varðar framleiðslu á lyfjum, markmiðið er ekki að fara fram hjá hinum innlendu þjónustuaðilum sem eru mikilvægur hluti af því að geta haldið utan um innkaup af þessu tagi, t.d. hvað snertir birgðahald, dreifingu og aðra þjónustu. Til að leggja áherslu á samkeppnisþátt málsins og til að gæta að stöðu innlendra fyrirtækja í þessu sambandi hefur viðskiptanefnd sammælst um að leggja meiri áherslu á samkeppnisþáttinn og að í beiðni Ríkiskaupa sé sérstaklega fjallað um stöðu samkeppninnar á viðkomandi vörusviði þannig að gætt sé að því að innkaupin standist samkeppnismat sem þarf að fara fram hjá ríkinu.

Auk þessa hefur viðskiptanefnd áður lagt til orðalagsbreytingu til að gefa sjónarmiðum hagkvæmni og virkrar samkeppni aukið vægi sem og að hyggja að því að vel sé gætt að samkeppnisumhverfinu.

Meira hef ég ekki um málið að segja, virðulegi forseti. Ég tel að skynsamlegt sé að samþykkja frumvarpið og gera það að lögum. Við horfum til þess að spara í ríkisrekstri og ná fram hagræðingu og ég tel að þetta sé mikilvægt skref í þá átt.