139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[12:13]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessari ræðu ætla ég fyrst og fremst að gera grein fyrir þeim breytingartillögum sem ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson flytjum við frumvarpið sem hér er til umfjöllunar í 3. umr. um breytingar á lögum um opinber innkaup.

Áður en ég kem að breytingartillögunni vil ég segja að frá mínum sjónarhóli eru á málinu sem slíku í raun tvær hliðar. Annars vegar markmið laganna sem er mjög göfugt; að reyna að tryggja sparnað í ríkisrekstri og eins og fram kom hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram má rekja tilurð þessa máls til áhuga Landspítala – háskólasjúkrahúss á að taka þátt í útboðum erlendis með það að markmiði að reyna að lækka rekstrarkostnað við innkaup á lyfjum.

Hin hliðin á málinu er sú að með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á frumvarpi um opinber innkaup sem eru almenn lög. Í raun er verið að leggja til breytingar á almennum lögum til að ná fram sértækum árangri ef svo má segja, vegna þess að lög um opinber innkaup ná ekki eingöngu til kaupa á lyfjum heldur til hvers kyns kaupa á vöru og þjónustu. Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því að hér eru margir málaflokkar undir, ef svo má segja. Í aðkomu minni að málinu hef ég sett spurningarmerki við það að verið sé að breyta almennum lögum til að ná fram sértækum aðgerðum.

Kallað hefur verið eftir því við vinnslu málsins í viðskiptanefnd, og forusta hv. nefndar hefur orðið vel við þeim beiðnum, að fá upplýsingar um hver ávinningurinn af frumvarpinu verður. Það er skemmst frá því að segja að hann liggur ekki fyrir, hann blasir ekki við. Það er galli við þetta mál, við vitum ekki nákvæmlega hver sparnaður Landspítala – háskólasjúkrahúss verður af því að fá að taka þátt í útboðum eins og þessum og að sama skapi vitum við ekki hvert hugsanlegt tap innlendra aðila sem starfa á lyfjamarkaði verður á móti. Þetta gerir það auðvitað að verkum að erfiðara er að fullyrða að þetta mál sé til bóta en eins og ég sagði í upphafi er markmið þessarar breytingar göfugt, sem er sparnaður í ríkisrekstri sem allir hljóta að styðja. Ég vildi í upphafi máls míns nefna þetta.

Við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson leggjum til breytingartillögu við frumvarpið eins og það var eftir 2. umr., þ.e. breytingu við 2. gr. Til að halda samhengi hlutanna til haga segir í þeirri grein, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra getur heimilað miðlægri innkaupastofnun að bjóða út innkaup, sem falla undir lög þessi, í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins, hvort sem er í samstarfi við erlenda kaupendur, samtök þeirra eða fulltrúa, og/eða miðlægar innkaupastofnanir eða sér. Heimildin skal veitt fyrir hvert útboð fyrir sig að undangenginni rökstuddri beiðni stofnunarinnar. Heimildin skal því aðeins veitt að fyrir liggi að reglur Evrópska efnahagssvæðisins um opinber innkaup hafi verið leiddar í lög í viðkomandi ríki og ástæða sé til að ætla að innkaup í ríkinu muni þjóna hagkvæmni eða virkri samkeppni og öðrum lögmætum sjónarmiðum við opinber innkaup. Um innkaup sem fram fara á grundvelli heimildar sem veitt er samkvæmt þessari grein gilda reglur viðkomandi ríkis, þar á meðal um kærur, gildi innkaupsákvarðana og skaðabætur. Í rökstuðningi fyrir beiðni innkaupastofnunar skal liggja fyrir mat á því hvort telja megi að viðunandi boð fáist með útboði á Íslandi.“

Við leggjum til að við þessa efnismálsgrein bætist þrír nýir málsliðir sem orðist svo:

„Í rökstuðningi fyrir beiðni innkaupastofnunar skal liggja fyrir sérstakt samkeppnismat. Við móttöku beiðni innkaupastofnunar skal fjármálaráðuneyti leita eftir staðfestingu Samkeppniseftirlitsins á samkeppnismati innkaupastofnunar. Staðfesti Samkeppniseftirlitið ekki samkeppnismat innkaupastofnunar fara innkaup ekki fram samkvæmt ákvæði þessu.“

Í öðru lagi leggjum við til að í stað orðanna „innan fimm ára“ í ákvæði til bráðabirgða komi „innan þriggja ára“, þ.e. að lög um opinber innkaup skuli endurskoðuð innan þriggja ára frá gildistöku frumvarpsins.

Eins og hv. þm. Magnús Orri Schram nefndi er þessi tillaga lögð fram með það að markmiði að auka enn frekar eftirlit með heimildum ríkisins til að taka þátt í útboðum erlendis og reyna að tryggja að varpað sé ljósi á hagsmuni allra aðila sem taka þátt í slíkum útboðum eða eiga hagsmuna að gæta, hvort sem það er íslenska ríkið, ríkisstofnanir eða aðilar sem starfa í þessari atvinnugrein eða öðrum. Ég vek athygli (Utanrrh.: Heildsalar.) hæstv. utanríkisráðherra á því — já, það kunna að vera heildsalar, það kunna að vera lyfjaframleiðendur eða þeir sem starfa við dreifingu á lyfjum en einnig aðilar sem veita t.d. tölvuþjónustu. Við getum líka tekið sem dæmi þyrlukaup eða tækjakaup eða hvað sem er í rauninni vegna þess sem ég nefndi áðan í ræðu minni að lögin um opinber innkaup eru almenn og varða kaup á vörum og þjónustu, sama hverju nafni þær nefnast.

Virðulegi forseti. Við leggjum því þessa breytingartillögu fram og ég tel að hún komi mjög verulega til móts við þau sjónarmið sem fram hafa komið í nefndinni. Ég tel að breytingartillagan sé til mikilla bóta og breyti frumvarpinu og bæti það og ég fagna því að svo ágæt samstaða náðist um hana, þ.e. 1. tölulið hennar, í viðskiptanefnd, sem ætti að greiða fyrir afgreiðslu málsins á þinginu.