139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[12:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hugsa alltaf hlýlega til allra vorra smæstu bræðra og það er fallega gert hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að flytja sérstaka breytingartillögu við frumvarp, sem hann er að öðru leyti algjörlega sammála, til að hlífa veslings litla íslenska heildsalanum. Það þarf líka að huga um þá, það gerir Samfylkingin.

Hins vegar er kannski aðaltilgangur minn sá að segja að ég fagna því að samstaða skuli hafa náðst um þetta en það er ekkert skrýtið vegna þess að einn tiltekinn þingmaður á hrós skilið fyrir baráttu sína í þessum greinum, það er hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Ég sat með honum í ríkisstjórn þar sem hann hafði forgöngu um að hefja þá vinnu sem leiðir í reynd til þess sammælis sem hérna er. Hv. þingmaður beitti sér fyrir margvíslegum nýmælum þá, bæði að koma á hagstæðari lyfjainnkaupum og gera Íslandi kleift að vera hluti af stærri útboðum á erlendum mörkuðum. Ekki má heldur gleyma hans góða frumkvæði, sem ekki má alveg týnast hér í meðförum hvorki framkvæmdarvalds né löggjafarvalds, sem varðar hið norræna heilsusvæði, sem er ákaflega jákvætt.

Ég er ánægður með þetta, gleðst yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn og stjórnin skuli hafa náð góðum árangri. Hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, flutningsmenn þessarar breytingartillögu, geta ekki annað en verið sammála megintillögunni sem hv. þingmaður las upp. En ég verð nú að segja að ég skildi ekki röksemdafærsluna fyrir þessu samkeppnismati. Erum við ekki á bandi samkeppni? Viljum við ekki spara ríkinu, neytendum, hafa trygg og örugg lyf? Menn verða bara að spjara sig í þeirri samkeppni og það þarf ekki stuðning þingmanna Sjálfstæðisflokksins til að lifa af í henni. Erum við ekki sammála um þetta grundvallaratriði, frú forseti?