139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:14]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Öll áform um endurskoðun veiðileyfagjalds byggjast á sátt, byggjast á samkomulagi sem var búið að ná í stórum hópi aðila frá flestum greinum samfélagsins. Því er bara öllu stungið ofan í skúffu og menn fara að meika eins og í tíu karlaklúbbum eða tíu saumaklúbbum eitthvert bras, biximat sem er óbrúklegur, viðbrenndur. Og um það er engin sátt. Þess vegna gengur ekki að tala um að það sé sátt um að auka veiðileyfagjaldið.

Það er staðreynd, virðulegi forseti, að þetta er fyrst og fremst deila um höfuðborg/landsbyggð, alveg sama þó að við viljum það ekki, alveg sama þó að það sé óskynsamlegt og vitlaust, þá er það þannig. Við getum ekki lokað augunum fyrir því. Við skulum horfast í augu við að þetta er slagur, þetta er barátta, barátta í þeim efnum. Allt þetta kerfi er slík hagsmunabarátta að það hlýtur að taka í taumana (Forseti hringir.) svo oft og tíðum.