139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig maður getur verið á móti strandveiðum. Ég þekki held ég engan sem er á móti strandveiðum. Hvernig ætla menn að vera á móti strandveiðum? Á maður ekki bara að vera á móti góðu veðri líka? Er það ekki næsta spurning? En ég vek athygli á því að hv. þingmaður kom hér með sögulega yfirlýsingu. Hún nefndi það að við ættum að ræða reiðilaust úr þessum stól. Ég fagna því. Hún fór svo yfir það í upphafi andsvars síns að ég hefði verið með skens og skemmtiyrði og slíkt og endaði svo á að kalla mig taumlausan frjálshyggjumann og kom síðan með einhver orð og hugtök sem ég kannast ekki alveg við og ætla ekki að leggja neitt sérstaklega út af. Það sem hv. þingmaður er að tala um er að félagsvæða fiskveiðarnar. Hver græðir á því? Halda menn að landsbyggðin græði á því? Nei, ef ekki verður arður af sjávarútveginum fer landsbyggðin verst út úr því, langverst.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að einhverra hluta vegna greiðum við ekki með sjávarútveginum á meðan aðrar þjóðir gera það. Og einhverra hluta vegna er m.a. Evrópusambandið að líta til okkar og skoða hvað við gerðum vel. En að koma hér og segja að sá árangur sem náðst hefur og aðrir líta til sé eitthvað, eins og augljóslega er í huga þingmannsins, það alversta hér í heimi, frjálshyggja og henni skuli skófla út. Ég vara við þeirri nálgun. Ég vara líka við þeirri nálgun að það séu sérstakir hagsmunir landsbyggðarinnar að ekki sé rekin arðsöm útflutningsatvinnugrein. Ef menn fara í gegnum Íslandssöguna, hefur enginn, virðulegi forseti, hagnast á því á Íslandi þegar sjávarútvegur er rekinn með tapi og sá (Forseti hringir.) sem fer langverst út úr því, langverst, er landsbyggðin.