139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hann sagði í ræðu sinni áðan að hann teldi að þetta mundi sérstaklega bitna illa á Austurlandi, eins og hann orðaði það. Ég held hins vegar að það sé alveg sama hvaða kjördæmi á landsbyggðinni á í hlut, þetta mun hafa gríðarlega afleiðingar fyrir öll kjördæmin. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði líka, þegar menn færa aflaheimildir frá einum stað til annars gefur augaleið að þá eru menn að flytja til störf.

Hv. þingmaður kom líka inn á það að nýliðun í kringum sjávarútveg gæti einmitt falist í störfum í tækniþróun, það þyrfti ekki endilega að vera úti á sjó. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að ef þetta heldur áfram sem horfir, og frumvarpið færi hugsanlega óbreytt í gegn, sem ég vona að verði ekki, að það muni þá draga úr eftirspurn (Forseti hringir.) hjá fólki að mennta sig til þessara mikilvægu starfa sem hv. þingmaður vísaði til í sambandi við sprotafyrirtæki og nýsköpun.