139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

fundarstjórn.

[15:06]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég missti því miður af upphafsorðum hv. þm. Bjarna Benediktssonar en held þó að ég hafi náð inntakinu.

Ef það er einhver undrun á afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli hefur hv. þm. Bjarni Benediktsson ekki fylgst með. Þessi afstaða hefur legið fyrir frá stofnun hreyfingarinnar. Hún er andvíg aðild að NATO, hún hefur fordæmt þessar loftárásir frá upphafi (Gripið fram í.) og stendur gegn þeim. Eins og ég hef sagt áður úr þessum ræðustól væri auðvitað óskandi að fleiri þingmenn, stærri hluti þessa þingheims, væru með okkur í þeirri vegferð að í verki væri Ísland friðsöm herlaus þjóð og sýndi það á alþjóðlegum vettvangi. Þessi afstaða kemur ekki á óvart.

Við munum vitanlega ekki setja okkur upp á móti utandagskrárumræðu um þetta mál, hún er kærkomin, en tilefnið ætti varla að vera undrun (Forseti hringir.) hv. þm. Bjarna Benediktssonar á afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.