139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

fundarstjórn.

[15:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að vel er tekið í beiðni um utandagskrárumræðu um efnið. Tilefnið er ærið, það er ekki hægt að mynda ríkisstjórn sem hefur tvenns konar stefnu, leikur tveimur skjöldum, í utanríkismálum, hvort sem það eru Evrópusambandsmál eða mál sem snerta Atlantshafsbandalagið og þátttöku þess í aðgerðunum í Líbíu.

Í sjálfu sér er það ekki mitt áhyggjuefni að trúverðugleiki Vinstri grænna er enginn, hvorki í þessu máli né öðrum, vegna þess að þau gera málin ekki að úrslitaatriði í nokkru samstarfi sem þau segjast berjast svo sterkt fyrir. Það er ekki mitt vandamál, það er þeirra að hafa áhyggjur af því, en ég hef hins vegar áhyggjur af því hvaða skilaboð íslensk stjórnvöld senda til umheimsins þegar ríkisstjórnin talar út og suður í jafnmikilvægu máli og þessu. Það er það sem við viljum ræða.