139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ræðurnar sem hafa verið fluttar hér í dag hafa verið athyglisverðar. Það merkilega við þær sem hafa verið fluttar af hálfu stjórnarsinna, hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og líka Sigmundar Ernis Rúnarssonar, er að þær ræður kalla í rauninni á meiri umræðu í þinginu. Þess vegna er ég hálfpartinn með böggum hildar yfir því að halda áfram minni seinni ræðu þegar ég hef margoft kallað eftir því undir liðnum um fundarstjórn forseta að hæstv. forsætisráðherra sitji hér og ræði við okkur, ekki síst með tilliti til þeirra orða sem þeir stjórnarsinnar sem ég nefndi áðan hafa látið falla hér í dag.

Það kemur nefnilega betur og betur fram að það er bullandi ágreiningur innan stjórnarflokkanna um þessi tvö stóru mál. Að mínu mati er ekki hægt að kalla það frumvarp sem við erum að ræða hér í dag litla frumvarpið, það sem líka hefur oft verið kallað VG-frumvarpið, því að það er byrjunin á því að kollvarpa kerfi sem ég hef margoft ítrekað að er í meginatriðum sterkt. Það er gott kerfi þó að það sé ekki gallalaust og ég undirstrika það.

Ég vil draga aftur fram að íslenskur sjávarútvegur er ekki ríkisstyrktur, eins og til dæmis sjávarútvegurinn í Noregi sem oft er dreginn hér fram í samanburði við til að mynda lengd nýtingarsamninganna. Þá er bent á Noreg og sagt: Sjáið, 18 ár. En sjávarútvegurinn í Noregi er í fyrsta lagi ekki undirstöðuatvinnuvegur eins og hann er hér og ég efast um að umræðan í þinginu í Noregi um olíumálin hefði verið með þeim hætti að hæstv. forsætisráðherra hefði ekki látið sjá sig ef það hefði átt að kollvarpa kerfinu í tengslum við alla olíuvinnslu. Ég held ekki.

Hér erum við að ræða sjávarútveginn á Íslandi sem er undirstöðuatvinnuvegur okkar og þá eiga ráðherrar í ríkisstjórn að sjá sóma sinn í að sýna sig í þingsal.

Sjávarútvegurinn hér er ekki ríkisstyrktur, hann er í meginatriðum arðbær og hefur skapað mörg störf þótt störfunum við veiðar og vinnslu hafi fækkað vegna þess að menn nýta tæknina. Menn eru að reyna að auka arðbærni í sjávarútvegi en um leið hefur störfum á öðrum sviðum í sjávarútveginum fjölgað. Þess vegna dreg ég fram að við eigum ekki að einangra okkur við umræðuna um sjávarútveginn sem tengist veiðum og vinnslu, heldur eigum við að tala um sjávarútveginn sem sjávarklasa eins og hefur verið dregið fram, m.a. í fyrirlestrum og rannsóknum sem voru kynnt í síðustu viku. Þar er einmitt undirstrikað að sjávarútvegurinn og þörf hans fyrir aukna tækni og aukna þjónustu gefur af sér sprota. Þess vegna hafa sprotafyrirtæki vaxið á Íslandi í tengslum við sjávarútveginn í margvíslegum mæli. Fyrir utan það erum við líka að tala um fjölbreytt störf sem tengjast sjávarútvegi almennt.

Ég gerði þá athugasemd — ég sé að ég á rúmlega eina og hálfa mínútu eftir en undir liðnum um fundarstjórn forseta bað ég um að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra yrði hér þannig að ég gæti spurt hann ákveðinna spurninga. Ég sé að hann er kominn núna loks í salinn og ég þakka kærlega fyrir það því að hann hefur verið duglegur að sinna þessu hér.

Reglugerðarheimildafarganið hefur verið mjög gagnrýnt í frumvörpunum. Hvaða möguleika sér hæstv. ráðherra sjálfur, ef hann reynir að fara í ákveðna sjálfrýni á þessum frumvörpum, til að minnka verulega þetta ráðherraræði sem allir hafa talað um, m.a. stjórnarþingmenn eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson og Magnús Orri Schram? Þeir hafa báðir bent á að þeir geti ekki sætt sig við það. Hvaða mótleik hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra hvað það varðar?

Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér í því að það væri hægt að ná sáttalendingu ef við ræddum ákveðna útfærslu á veiðileyfagjaldi gegn því að sjávarútvegsfyrirtækin gætu starfað til lengri tíma á grundvelli og forsendum nýtingarsamninga sem eru þá til lengri tíma en hér er rætt um, þessi 15 ár. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra sjái ekki flöt á því að þar væri hægt að ná þessari langþráðu sátt. Ríkisstjórnin, ekki síst forsætisráðherra, vill greinilega viðhalda ósættinu.

Ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðherra fleiri spurninga en tími minn hér í púltinu er nú liðinn. Ég vonast til þess að koma fleiru að í væntanlegu andsvari við hæstv. ráðherra sem ég þakka fyrir (Forseti hringir.) að er hér viðstaddur.