139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að okkur greinir á um hversu mikið hin óhefta markaðshyggja eigi að ráða ferð í sjávarútvegi og þá gagnvart sjávarbyggðunum vítt og breitt um landið. Okkur greinir á um það. Ég virði í sjálfu sér skoðanir hv. þingmanns en sú óhefta markaðshyggja sem hefur ríkt að stórum hluta undanfarin ár hefur leikið sjávarbyggðirnar, ýmsar, grátt. Að sjálfsögðu geta menn fundið í því reikningslega hagræðingu þó að það sé kannski ekki samfélagslega hagkvæmt þegar á heildina er litið. Þarna greinir okkur á. Vissulega þarf að vera ákveðinn markaðsbúskapur í þessu líka og þarna er farin sú leið að tryggja, eftir því sem tök eru, báðum þessum sjónarmiðum, báðum þessum kerfum hæfilegt rými. En að sjálfsögðu skiptir þetta okkur (Forseti hringir.) í flokka, að markaðshyggjan leysi allt. Þar erum við hv. þingmaður innilega ósammála, að hún eigi alfarið að ráða hér (Forseti hringir.) ferð.