139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:39]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Klukkuna vantar 20 mínútur í 12 og þegar klukkan slær 12 erum við komin inn í uppstigningardag. Af umhyggju við forseta og starfsmenn þingsins væri ágætt að fá að vita hvað forseti hyggst funda lengi, hvort það verði í þessar 20 mínútur í viðbót eða hvort hann sjái fyrir sér að við vinnum fram eftir nóttu. Það hefur oft verið kallað eftir því í ræðustól að við fáum einhverjar upplýsingar um hvað hæstv. forseti er að hugsa varðandi skipulag fundarins og segja má að raunar allt þingið bíði svolítið eftir því núna að fá að vita aðeins meira hvernig forseti hyggst halda á stjórn funda í þinginu.

Ég ítreka þessa ósk mína af umhyggju fyrir okkur öllum, að við fáum nánari upplýsingar hjá forseta um hvað hann hyggst gera.