139. löggjafarþing — 139. fundur,  2. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[01:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að það þarf að ræða vel stöðu landsbyggðarinnar eftir að þessi ríkisstjórn hefur verið við völd í tvö og hálft ár.

Að öðru leyti vil ég segja að ég harma að hæstv. ráðherra hafi ekki svarað þeim efnismiklu spurningum sem við lögðum fram, allmargir þingmenn. Við fórum yfir hverja efnisgrein fyrir sig og ég fullyrði að það voru nokkrar spurningar sem við lögðum fyrir hæstv. ráðherra um hverja einustu efnisgrein og hæstv. ráðherra kaus að svara ekki heldur fara almennum orðum um þessi mál.

Ég ætla þess vegna að einbeita mér að því að fjalla um 1. gr., um það sem lýtur m.a. að strandveiðunum. Við höfum gagnrýnt mjög harkalega þá svæðaskiptingu sem hæstv. ráðherra hefur ákveðið. Hann hefur algjört sjálfdæmi um hana, það er algjörlega í hendi hans að breyta svæðaskiptingunni. Það er ekki einkamál sjómannanna, það er ekki einkamál útgerðarmannanna, það er líka mál sveitarfélaganna vegna þess að þau fá tekjur á grundvelli þess afla sem landað er. Vegna þessarar misskiptingar verða sveitarfélög þar sem menn fá að róa kannski bara fimm daga í mánuði eins og gerðist í maí á A-svæðinu, af tekjum.

Það er mjög sérkennilegt í ljósi þess að hæstv. ráðherra er með tillögu í 6. gr. um að endurgreiða sveitarfélögunum hluta af veiðigjaldinu þannig að hér rekur sig hvað á annars horn. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra enn og aftur til að endurskoða svæðaskiptinguna þótt ekki væri nema til að gera stöðu sveitarfélaganna jafnari.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað á hann við þegar hann talar um eiganda fiskiskips? Tökum sem dæmi mann sem á 1% í skipi. Það er orðið dýrt að kaupa strandveiðibáta núna, þeir hafa snarhækkað í verði eftir að strandveiðikerfið komst á. Það hefur snarhækkað í verði núna eftir að fréttir bárust af því að til stæði að auka í þennan pott og nú eru orðnar miklar aðgangstakmarkanir af þeim ástæðum inn í þetta kerfi. Margir sem vilja fara í strandveiðarnar verða þess vegna að leita sér fjármagns annars staðar og geta verið í þeirri stöðu að eiga bara 2% í bát. Hafa þeir þá heimild til þess að róa eða hvernig skilgreinir hæstv. ráðherra það?