139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans. Það vekur auðvitað mikla athygli að ráðherrann leggur í málflutningi sínum afskaplega litla áherslu á hagkvæmni í veiðum og því hverju veiðar við Íslandsstrendur skila þjóðarbúinu sem heild. Hér er talað um nýliðun og að styrkja byggðirnar. Staðreyndin er sú að aflaheimildir í landinu eru að langmestu leyti hjá byggðum landsins, á landsbyggðinni, í kjördæmi viðkomandi ráðherra sem hefur talað.

Það sem stendur upp á ráðherrann er að útskýra, fyrst hann leggur þetta mikla áherslu á að auka pottana svokölluðu við hliðina á aflahlutdeildarkerfinu, og svara því hvaða réttlæti er í því að þeir sem hafa á grundvelli gildandi laga keypt til sín heimildir þurfi núna í stórfelldum mæli að sæta skerðingum til að ráðherrann geti fengið heimildir til að ráðstafa veiðiheimildum eftir eigin höfði. (Forseti hringir.) Hvaða réttlæti er í því að þeir þurfi að sæta skerðingum til þess að aðrir geti veitt? Hvers vegna á að taka veiðiréttinn af einum til þess að afhenda öðrum?