139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil gera tvær athugasemdir við fundarstjórn forseta, taka annars vegar undir þær óskir sem hér hafa komið fram um að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra séu viðstaddir umræðuna, ekki síst í ljósi mikilvægis þessarar atvinnugreinar og ummæla hæstv. forsætisráðherra.

Hins vegar vildi ég líka koma hingað upp að gefnu tilefni þegar hv. þm. Þór Saari gerir að umtalsefni hæfi þingmanna. Mér fannst það vera lágkúrulegt og hefði ekki fundist athugavert við fundarstjórn forseta að hæstv. forseti hefði gert athugasemdir við það.

En ef við höldum áfram með þessa umræðu — hvernig á þetta að enda? Eru allir þeir sem koma úr atvinnulífinu vanhæfir til að fjalla af þekkingu um það sem gerist þar? Eru allir þeir sem koma þá úr launþegahreyfingunum vanhæfir til að fjalla um mál sem snerta þá? Eru allir þeir sem eru kennarar vanhæfir til að fjalla um menntamál? Eru þeir einir hæfir (Forseti hringir.) sem vita ekki neitt?