139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég mun bara svara fyrir mig prívat og persónulega en ekki einhvern flokk í heild sinni. Að mínu viti fólust mikil sóknarfæri í niðurstöðu sáttanefndarinnar um hvernig menn gætu hugsanlegu náð sáttum. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir alla aðila málsins, alveg sama hverjir það eru og hversu hart þeir deila, að menn slái allir af. Öðruvísi náum við ekki sátt. Mér fannst ég lesa það út úr niðurstöðu sáttanefndarinnar, en síðan þegar menn fara að túlka það eins og margt annað túlka þeir það með mismunandi hætti.

Ég held að aðalatriðið sé að við náum að festa þetta niður, þ.e. að ákveðinn hluti af aflahlutdeildinni verði inni í því kerfi sem er, verði í einhverjum pottum og ráðherrann hafi þá heimild til að færa á milli. Þá á ég við ákveðinn hluta í prósentum talið. Reynslan segir okkur að við verðum að hafa eitthvert aflamark til þess að bregðast við því sem við höfum horft á gerast, til að mynda þegar verður áfall í einni byggðinni eða ákveðnir stofnar hrynja. Þá verðum við að geta brugðist við. Ég held (Forseti hringir.) að ekki séu miklar deilur um það. Þetta er spurning um útfærsluatriði og ég er alveg sannfærður um að ef allir munu anda aðeins með nefinu (Forseti hringir.) og ræða þetta af skynsemi áfram muni menn komast að niðurstöðu.