139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það gætir ákveðins misskilnings í andsvari hv. þingmanns. Það sem ég dró fram þegar ég lagði til að hæstv. ráðherra flytti tillögur sínar byggðar á þeim grunni og mundi þurfa að túlka það fyrir okkur gætum við einmitt komið sjónarmiðum á framfæri og tekið miklu dýpri umræðu um þau. Ég tel það mjög eðlilegt. Mér finnst alveg fáránlegt að það sé eitthvert alræðisvald í höndum ráðherra, hann ráðfærir sig bara við þá sem honum dettur í hug. Það er bara tillaga frá Hafrannsóknastofnun. Svo talar hann við einhverja aðila. Það er mismunandi mikið hvað hann tekur mark á þeim. Ég er ekkert sáttur við það. Ef hæstv. ráðherra hefur efnislega sterk rök fyrir þeim tillögum sem hann færir hljóta þær að vera samþykktar. Það gefur alveg augaleið. Það er hin líflegasta umræða.

Að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sitji og bíði bara eftir því hvað hæstv. ráðherra segir, gerir eða leggur til er fráleitt. Ég benti á það áðan að það er mjög mikilvægt að menn taki þessa umræðu og þegar hæstv. ráðherra komst upp með það fyrir tveimur árum að skerða bolfiskinn um 60 þús. tonn (Forseti hringir.) fannst mér algjörlega fáránlegt að fólk væri ekki meðvitað um að það hefði áhrif á sjávarbyggðir í landinu. (Forseti hringir.) Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega?