139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður tekur undir sjónarmið mitt um að það sé mikilvægt að hafa aflaráðgefandi nefnd sjómanna vegna þess að það hefur staðið dálítill styrr um þá fiskgengd sem sjómenn áætla í sjónum og Hafrannsóknastofnun, sem byggir áætlunina að mestu á svokölluðu togararalli. Netarall er bara fjáröflun fyrir Hafrannsóknastofnun, það er ekki tekið neitt mark á því, það er ekki notað þegar verið er að meta stofnstærðina.

Það sem hefur t.d. verið að gerast í vetur er að gríðarleg fiskgengd hefur verið alls staðar í kringum landið. Við höfum fengið fregnir af því austur á fjörðum og annars staðar. Menn sem eru búnir að vera áratugi til sjós hafa aldrei upplifað annað eins. Ég man ekki eftir að hafa heyrt frá heimaslóðum mínum að menn hefðu lagt net á daginn, á morgnana, og dregið seinni partinn tvær, þrjár trossur og allir bátar hefðu verið fullir. Ég veit eiginlega ekki hvað þarf til til þess að menn átti sig á þeirri hugmyndafræði að ekki er hægt að geyma þorskinn í sjónum og veiða hann bara einhvern tíma seinna. Það er ekki þannig því að þorskurinn leitar sér að æti.

Það er líka mjög mikilvægt að taka þessa umræðu upp vegna þess að við höfum að mínu mati í gegnum tíðina og mörg undanfarin ár veitt allt of mikið æti frá fiskinum. Nýjasta æðið var til að mynda að veiða svokallaða gulldeplu. Menn spá ekki nægilega mikið í vistkerfi hafsins, hvaða áhrif það hefur á uppgang fiskstofnanna að veiða alltaf svona mikið æti frá þeim, heldur rexa menn og pexa um hver eigi að fá að veiða. Nú ætla menn að taka upp pólitíska stýringu og handvelja með ráðherravaldi hver fái að veiða og hver ekki. Við þekkjum það frá fyrri tíð þegar ráðherrar settu skuttogara í hvert sjávarpláss og staðan var orðin slík 1984 að svarta skýrslan kom út.

Í mjög áhugaverðu viðtali við gamlan reyndan aflaskipstjóra úr Grindavík, Williard Fiske Ólason, bendir hann einmitt á að á fyrstu árum kvótakerfisins hafi Þorbjörn Fiskanes (Forseti hringir.) ekki náð kvótanum sínum og ekki hafi það verið vegna þess að þeir hefðu ekki færa skipstjórnarmenn eða góðar áhafnir.