139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var aldeilis athyglisvert svar, að þetta sé pólitísk niðurstaða. Það er sem sagt stefnumótun af hálfu ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna að fara með sérstökum hætti í að fyrna aflaheimildir í þessum fjórum tegundum. Hv. þingmaður er augljóslega að segja að það sé yfirveguð, mótuð afstaða að ganga þannig fram að þær byggðir sem meðal annars byggja mest á þorskinum, útgerðir sem gera út á þorskinn, verði fyrir sérstakri skerðingu. Þá liggur það bara fyrir. Ég hélt í barnaskap mínum að þetta kynni að hafa verið yfirsjón. Svo er ekki, þetta er ígrunduð afstaða.

Yfir í annað, það er kveðið á um það varðandi nýtingarsamningana að mögulega verði ekki gerðir nýtingarsamningar við þær útgerðir sem ekki hafa kjarasamninga. Þær útgerðir sem ekki hafa kjarasamninga í dag eru smábátaútgerðir. Ég spyr: Telur hv. þingmaður það frágangssök, telur hv. þingmaður ekki koma til greina að gera nýtingarsamninga við útgerðir sem ekki hafa kjarasamninga?