139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði okkur að hún væri stolt af því frumvarpi sem hér er til umræðu. Ég verð að segja að það olli mér töluverðum vonbrigðum að þingmaðurinn skyldi upplýsa okkur um það þar sem hér hefur fátt verið gagnrýnt jafnharkalega, bæði innan þings og utan, og akkúrat þetta frumvarp og meira að segja af stjórnarþingmönnum. Hv. þingmaður talaði hér um gæslumenn sérhagsmuna. Ég vil upplýsa hv. þingmann um það að andstaða mín við þetta frumvarp byggir á því að ég tel mig þurfa að gæta hagsmuna þeirra þúsunda sem vinna við fiskvinnslu, t.d. í Norðvesturkjördæmi þaðan sem við erum bæði, ég og hv. þingmaður. Ég hef áhyggjur af þeim 500 manns sem hafa lífsviðurværi sitt af t.d. fyrirtækjum í þeim bæ sem ég kem frá. Ég hef áhyggjur af þeim hundruðum sem hafa atvinnu af fyrirtækjunum á Snæfellsnesi og þeim hundruðum sem hafa atvinnu af fyrirtækjunum á Vestfjörðum, Ísafirði og þar í kring.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef ég tel mig vera að gæta hagsmuna þessa fólks, hverra hagsmuna er hún þá að gæta?