139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

fangelsismál -- útsendingar sjónvarpsins.

[10:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem mig langar að ræða við hæstv. fjármálaráðherra, ég sé til hvort hvort tveggja kemst að. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í fangelsismál. Nú er það þannig að sá er hér stendur er orðinn hálfringlaður yfir því hvernig fangelsismálin standa, hvort við erum að fara að byggja fangelsi eða ekki. Mér sýnist að fram komi misvísandi upplýsingar um það hvort fjármögnun á verkefninu sé tryggð og sér í lagi hvaða leiðir eigi að fara til fjármögnunar.

Einkum og sér í lagi hafa tvær leiðir verið nefndar, annars vegar hin hefðbundna ríkisleið, þ.e. að ríkið byggi fangelsi, eins og er kannski eðlilegast að það geri, og hins vegar að farin verði leið einkaframkvæmdar, þ.e. að einhver byggi þetta og leigi ríkinu það síðar eða eitthvað þess háttar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er staðan á þessum hluta verkefnisins? Er búið að taka ákvörðun um hvernig farið verði í byggingu fangelsis? Eftir því sem ég kemst næst er ekkert eftir nema að taka þá ákvörðun. Má þá ætla að það standi á fjármálaráðuneytinu að kveða upp úr með það hvaða leið eigi að fara?

Í öðru lagi — ég vil helst að ráðherra svari þessari spurningu skilmerkilega — langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í það að þegar við tölum um nefskatt, eða skatt sem við greiðum til Ríkisútvarpsins, sé hugmyndin sú að sá skattur innihaldi allan kostnað okkar einstaklinganna er lýtur að Ríkisútvarpinu. Nú erum við að fá fregnir, og það kann að vera að maður eigi að vera upplýstari um það, að allir Íslendingar þurfi að kaupa sér eða leigja myndlykil til að ná útsendingum RÚV eftir stuttan tíma vegna þess að það eigi að hætta að senda út með hefðbundnum hætti. Er ekki eðlilegra að Ríkisútvarpið skaffi okkur þessa myndlykla til að ná útsendingu sem við borgum fyrir með skatti?