139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

fangelsismál -- útsendingar sjónvarpsins.

[10:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi þetta með Ríkisútvarpið. Mér skilst að norska ríkissjónvarpið skaffi slíka myndlykla til að hægt sé að horfa á þær útsendingar. Í ljósi norrænu velferðarstjórnarinnar og mikils álits ríkisstjórnarinnar á Norðmönnum held ég að hæstv. fjármálaráðherra ætti að beita sér fyrir því að það yrði skoðað.

Varðandi fangelsismálin veit ég ekki hvort ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt, þ.e. að ekki sé enn búið að taka ákvörðun um hvernig staðið verði að fjármögnun. Ef sá skilningur er réttur að menn eigi eftir að taka þá ákvörðun langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um tímasetningar í því. Það er mjög mikilvægt að þetta mál fari að skýrast, ekki síst vegna þess að við fáum stanslausar fréttir af miklu álagi og biðlistum eftir því að hefja afplánun og þess háttar. Það er mjög mikilvægt að við komumst til botns í því hvernig eigi að standa að fjármögnuninni. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur eitthvað frekar um það hvenær við megum búast við niðurstöðu í því. Það er vitanlega átakanlegt ef það er þannig að menn eigi eingöngu eftir að kveða upp úr um það (Forseti hringir.) hvaða leið verði farin í fjármögnuninni.