139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

skuldaniðurfelling Landsbankans.

[11:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það hlýtur að róa þá mjög sem eiga í vændum greiðslur út á þetta skuldabréf þegar fréttir berast af því að bankinn sé svo vel staddur að hann telji sig vera í færum til að fara út í aðgerðir af þessu tagi. Það hlýtur að vera ávísun á að bankinn standi vel og telji sig það sterkan að hann geti gert jafnvel betur en áður hafði verið áformað í tengslum við viðskiptavini hans.

Varðandi fyrirkomulagið á eignarhaldinu man ég ekki betur en að á Alþingi hafi verið algjör samstaða um að við ætluðum ekki að ganga frá þessu upp á gamla móðinn þannig að það væru pólitísk afskipti af dagsdaglegum rekstri fjármálastofnana sem tímabundið lentu í eigu ríkisins. Ég man ekki betur en að um það hafi verið full samstaða. Þannig voru lögin sett. Það verður ekki bæði sleppt og haldið, hv. þingmaður. Það þýðir ekkert fyrir menn að kveina undan því að vitnað sé í það hvernig gengið var frá hlutum af þessu tagi með lögum. Við förum að þeim lögum, (Forseti hringir.) þannig er það, hv. þingmaður.