139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði af skörungsskap og eldmóði. En man hv. þingmaður eftir því að þau sjónarmið sem hann var að flytja voru líka flutt í ræðu á sjómannadaginn og baulað var að ræðumanni? Ég kem ekki hingað upp til að baula á hv. þingmann, heldur þakka honum fyrir ræðuna.

Mér finnast árásir hans á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ómaklegar. Er hv. þingmaður, sem hefur lýst því yfir að hann vilji efla hlutdeild Vestfirðinga, þeirrar skoðunar að strandveiðiaukning komi ekki Vestfirðingum til góða?

Þá kemur að annarri spurningu og þó að hún tengist kannski ekki beint þessu frumvarpi langar mig að heyra af vörum hv. þingmanns hvort hann styðji ekki að í gegnum þing á þessu vori fari aukning á strandveiðikvóta.

Í annan stað langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað vill Sjálfstæðisflokkurinn? Hvað vill hann gera til að ná sátt um þetta mál? Hér er bullandi ósætti og við þurfum einhvern veginn að greina útlínur (Gripið fram í.) skoðana flokkanna og reyna að (Forseti hringir.) ná samkomulagi. Ég held að það sé hægt.