139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[17:51]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka viðbrögð hv. þingmanns. Eins og fram kom í máli þingmannsins höfum við heilmikið rætt um að það skipti ekki minna máli þegar verið er að vinna með fatlað fólk að þekkja til réttinda þess eins og að vita allt um vöðvabyggingu þess eða þær þjálfunaráætlanir sem best er að gera. Þetta ræddum við fram og til baka og í framhaldi af því verður til þessi hugmynd með starfshóp sem á að fara yfir réttindamálin almennt. En svo þurfum við líka að hugsa það þannig að þegar fatlaður einstaklingur er að berjast fyrir réttindum sínum þá er það mjög oft tengt þjónustu. Þjónustan er kannski eitthvað sem er velferðarmál þannig að við erum aðeins í togstreitu með þessi mál, en ég trúi því að þessi hópur muni fara yfir það.

Mig langar síðan til að spyrja hv. þingmann, af því að við höfum svolítið verið að burðast með eftirlit með velferðarmálum almennt — nú síðast í vetur töluðum við mikið um þau mál sem heyra undir okkar nefnd eins og barnaverndarmál, ýmislegt kom upp í tengslum við meðferðarheimili. Upp á síðkastið hafa verið að koma upp mál sem tengjast hjúkrunarheimilum, lyfjaávísunum o.s.frv. Ég hefði því gjarnan viljað heyra hvort hv. þingmanni þyki það eðlilegt að við færum í alvöru að huga að því að búa okkur til óháða eftirlitsstofnun sem hefði eftirlit með velferðarstofnunum eða þeim stofnunum sem koma að velferðarmálum og þá jafnvel réttindagæslunni líka.