139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil blanda mér aðeins í umræðurnar í tengslum við EES og Evrópusambandið. Á umliðnum vikum höfum við rætt nokkuð mikið um Evrópusambandið og EES-samninginn. Það hefur verið mikill samhljómur í þinginu um að þingið eigi að nýta sér betur þau tæki og tól sem það hefur, en hefur ekki nýtt sér í tengslum við EES-samninginn, m.a. að hafa áhrif í Brussel, vera með talsmenn þar. Það höfum við ekki gert en það er nokkurn veginn, eins og ég segi, samhljómur um að það hefðum við betur gert og ættum að gera.

Ef ég væri í sporum hv. þm. Baldurs Þórhallssonar hefði ég meiri áhyggjur af ríkisstjórninni sjálfri hvað viðkemur Evrópusambandsumsókninni. Ég held að hann ætti frekar að beina sjónum sínum að hæstv. ráðherrum í ríkisstjórn eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar kemur að öllu ESB-umsóknarferlinu. Þar fara menn að mínu mati einfaldlega ekki eftir því sem þingsályktun frá Alþingi kveður á um varðandi umsóknarferlið að ESB. (Gripið fram í.) Það er mín skoðun (Forseti hringir.) að við eigum að fylgja eftir þeirri þingsályktunartillögu, frú forseti, við eigum ekki að vera með neinn hræðsluáróður hér. Þessi stjórnmálaöfl sem hafa ólíkar skoðanir, bæði innan flokka og þvert á flokka, eiga þó að sameinast um að reyna að ná sem bestum samningi við Evrópusambandið þannig að þjóðin geti þegar þar að kemur verið fullviss um (Gripið fram í.) að stjórnmálamennirnir hafi lagt sitt af mörkum til að hún hafi raunverulegt val um það hvað henni sé fyrir bestu þegar fram í sækir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)