139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[12:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því er varðar starfsgengisskilyrði héraðsdómara og ég er jafnframt frekar hlynnt því að það skuli eiga að undanþiggja hámarksaldursákvæðið í lögum um dómstóla því að við gætum svo sannarlega átt mikla lagaspekinga, sem mundu teljast til öldungaráðs í þessum fræðum, sem gætu þá tekið að sér rannsóknir af þessu tagi. Eins og kemur fram í frumvarpinu er í minni rannsóknum gert ráð fyrir að einungis einn aðili geti farið með rannsókn máls ef það er ekki viðamikið.

Þar sem þessum rannsóknarnefndum samkvæmt þessu frumvarpi er falið mjög víðtækt vald til gagnaöflunar, til yfirheyrslna o.s.frv. langar mig að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson hvort honum þyki valdið of víðtækt. Til dæmis eru lagðar til breytingartillögur við 4. gr. sem leiða það af sér að ef grunur vaknar við rannsókn nefndarinnar um refsiverða háttsemi skuli hún tilkynna ríkissaksóknara um það. Er verið að framselja eitthvert vald til nefndarinnar sem óeðlilegt er að sé á hennar borði, því að það að bera fólk sökum er afar þungbært? Og eins þetta ákvæði um það að ef nefndin kemst að því að opinber starfsmaður hafi gerst brotlegur sé því vísað samdægurs til viðkomandi forstöðumanns eða í hlutaðeigandi ráðuneyti.

Ég hef ekki tíma til að spyrja út í ráðherraábyrgðina. En finnst þingmanninum þessi mál vera í eðlilegum farvegi með því að nefndinni sé falið að sakbenda og koma málum til þessara aðila?