139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:36]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þetta innlegg í umræðuna. Ég er ríkur talsmaður þess að samgöngubætur taki mið af ferðahegðun innlendra sem erlendra ferðalanga. Nægir að benda á dæmi eins og Dettifossveg í norðri sem er gríðarlega mikið kappsmál fyrir ferðaþjónustuna á því svæði að verði lagður á enda. Eins og kunnugt er er hann einungis hálfnaður í lagningu, ef svo má segja.

Hv. þingmaður nefnir Uxahryggjaleiðina. Hún mun klárlega létta mjög á álagi á umferð á suðvesturhorninu og ég er mikill talsmaður þess, rétt eins og með Dettifossveg, að hún verði lögð til enda. Við þekkjum það af ferðaháttum Íslendinga að þeir eru mjög á ferðinni til Suðurlands af Norðurlandi til að njóta þeirra náttúrugersema sem þar er að finna og þessi stytting er einhver sú mesta sem völ er á á hringveginum og við þurfum að horfa mjög til hennar. Ég er reyndar talsmaður fleiri styttinga á milli helstu staða á landinu og gæti nefnt Blönduós sem dæmi, þá keldu sem þar ber að afleggja til að auka á hagkvæmni í flutningum með alls konar vörur milli landshluta og væri þjóðhagslega hagkvæmt.

Almennt má segja um þessar styttingar að þær eru þjóðhagslega hagkvæmar og þær eru mjög hagkvæmar fyrir ferðaþjónustuna sem er vaxandi grein. Á hitt ber að líta í lokin, og það er kannski mest um vert, að þessar leiðir auka öryggi í ferðaþjónustu og við þurfum einmitt sérstaklega að horfa til öryggisþáttanna í þeirri ferðaþjónustu sem er vaxandi á næstu árum. Það er ekki nóg að auka ferðaþjónustuna, við þurfum umfram allt að auka öryggi í henni.