139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en hún hefur verið mjög áhugaverð. Ég hygg að við Íslendingar séum að gera mjög stór mistök í ferðaþjónustu, við höfum gert það mjög lengi og ég hef nefnt það áður. Við höfum beint henni mikið yfir á sumarið og menn fagna hverjum túrista, jafnvel þegar hann kemur í júlí. Ég fullyrði, frú forseti, að íslensk ferðaþjónusta tapi á hverjum ferðamanni sem kemur í júlí vegna þess að þá er allt yfirfullt og öll fjárfestingin miðast við þá nýtingu. Við eigum að reyna hvað við getum að fækka ferðamönnum í júní, júlí og ágúst en reyna sem mest að fá ferðamenn á öðrum tíma ársins, sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Ég hef nefnt það áður að við höfum líka fallið í þá freistni að selja Ísland þar sem allar myndir eru með sól og blíðu og öðru slíku. Við eigum að selja myrkrið og rigninguna. Meginhluti mannkynsins þjáist af hita og sól, t.d. allur arabaheimurinn. Þar þjáist fólk af hita og sól. Ég er viss um að á þeim markaðssvæðum gætum við selt einmitt myrkrið og rigninguna. En menn hafa ekki hugmyndaflug til að gera þetta og ég hef bent mönnum á það áður.

Varðandi ferðamannastaðina sjálfa þá hef ég nokkrum sinnum farið í Þórsmörk og farið upp og niður Kattahryggi og þeir eru ömurlegir ásýndar, frú forseti. Auk þess hafa menn byggt trétröppur á vissum stöðum í Þórsmörk. Tröppur upp fjöll eru í mínum huga ekki ósnortin náttúra, þetta er eiginlega orðið skipulagt þorp.

Einnig hefur verið nánast frjálst landnám í Þórsmörk lengi vel. Ég hygg að nú sé búið að koma í veg fyrir það og menn þurfi þá alla vega að sækja um leyfi fyrir þeim húsum og skúrum sem þeir byggja þar. En hvernig leysir maður það ef milljón manns vilja fara í Þórsmörk, hvernig leysir maður það vandamál? Við höfum gert það hingað til með því að hleypa þangað fólki eingöngu á rútum og jeppum, fólksbílar komast ekki þangað inn og menn hafa ekki malbikað veginn eða brúað árnar. Ég er eiginlega fylgjandi þeirri stefnu en hún dugar ekki til vegna þess að menn geta þá farið og leigt sér jeppa eða rútur og komist þangað engu að síður. Þegar ferðamannaþjónustan verður of mikil og þegar við förum að sjá hérna milljón ferðamenn innan ekki mjög langs tíma þurfa menn að velta fyrir sér hvernig þeir ætla að vernda ferðamannastaðina fyrir ferðamönnunum. Af því að aðalumhverfismengunin á Íslandi eru ferðamennirnir sjálfir, bæði átroðsla og síðan úrgangur og annað slíkt sem fylgir slíkum mannfjölda.

Stofna á Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og hann á að reyna að bæta aðstöðuna en við þurfum einhvern veginn að takmarka aðganginn. Fyrir 11–12 árum, ég held að árið 1999 hafi komið fyrirspurn um það, stakk ég upp á því að menn mundu, sérstaklega vegna aðgangs inn í Þórsmörk, halda happdrætti þar sem allir landsmenn tækju þátt í, einhver ferðafélög mundu þá mæta fyrir hönd erlendra ferðamanna, um hverjir mættu fara inn í Þórsmörk það árið eða þá að hafa uppboð á ferðum inn í Þórsmörk. Sá sem borgaði 100 þúsundkall eða meira mundi vinna ferðina. Eða þá hafa biðlista fyrir fjölskyldur sem vildu fara inn í Þórsmörk og jafnvel hafa framseljanlegan kvóta. Einhvern veginn verða menn að leysa þetta þegar ferðamannaþjónustan verður að taka á móti enn fleiri ferðamönnum því að við skulum ekki hugsa þetta til skamms tíma.

Ég man þá tíð þegar ég var í Mývatnssveit að ein rúta kom öðru hverju og stoppaði við Dimmuborgir endrum og eins. Svo þegar ég kom þangað um 20 árum seinna var orðinn mökkur af rútum og ég geri ráð fyrir að það hafi versnað enn frekar síðan þá. Ég reikna með að ef við hugsum svona 20–30 ár fram í tímann muni koma hingað með sömu aukningu um fimm eða tíu milljónir ferðamanna. Hvernig í ósköpunum ætlum við að ráða við það? Ég er ansi hræddur um að við þurfum að ganga töluvert lengra en þessar hugmyndir um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða ganga út á, miklu lengra.

Ein lausnin er sú að dreifa ferðamönnum á fleiri staði, búa til fleiri staði. Það er fjöldinn allur af stöðum þar sem kemur aldrei nokkur maður, staðir sem eru mjög áhugaverðir. En það tæki vissan hluta af þessu en ekki allan. Lausnin felst því í þeim þremur leiðum sem ég nefndi og kannski finna einhverjir aðrir upp betri leiðir, þ.e. að hafa uppboð, happdrætti eða biðlista. Svo væri náttúrlega hægt að takmarka komur ferðamanna til landsins, reyna að fá hingað dýra ferðamenn, ferðamenn sem borga mikið og eru tilbúnir til að borga mikið. Og það er einmitt það sem menn eru að byrja með núna, að koma með skattlagningu, að gera Ísland hreinlega að dýru ferðamannasvæði með skattlagningu af því að landið ræður hreinlega ekki við þá miklu fjölgun sem ég er að sjá fyrir mér ef þetta heldur áfram næstu 30 árin og við þurfum að hugsa dálítið til framtíðar.

Mér sýnist á mörgum svæðum eins og við Landmannalaugar að það sé alveg á mörkum þess að þau þoli þann ferðamannastraum sem þar er. Einnig leiðir eins og Laugavegurinn og fleiri leiðir eru farnar að láta á sjá vegna átroðslu. Þess vegna hugsa ég að þegar menn fara að skoða öll tækifæri Íslands, stóriðju, ferðamannaþjónustu og svo sjávarútveg, að ferðamannaþjónustan mengi mest og skaði landið hvað mest í sjónmengun og alls konar mengun og skemmdir verða á okkar ágætu og fallegu ferðamannastöðum.

Mér finnst þetta góð umræða, ég vildi gjarnan koma í pontu og taka þátt í henni. Ég hvet menn til að hugsa dálítið lengra en nokkra mánuði eða fimm ár fram í tímann. Við verðum að hugsa í 20, 30 árum og gera ráð fyrir að þróunin sem verið hefur síðustu 20, 30 árin, sem er sennilega um 30-földun á ferðamannaþjónustunni, haldi áfram þannig að eftir 30 ár verðum við með 30-falt það sem núna er, sem sagt 15 milljónir ferðamanna.