139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguræðu hans. Ég spyr hann hvort hann hafi enga trú á íslenskri krónu í núverandi stöðu, hvort hann telji að raungengi krónunnar geti farið öllu neðar og hvað þá muni gerast varðandi til dæmis áhuga erlendra aðila á kaupum á innlendum eignum og fjárfestingum. Mér finnst vanta hugkvæmni, snilld og hugrekki til að taka á vandamálunum og menn eru einmitt að fresta því með því að binda í lög þessi gjaldeyrishöft vegna þess að menn gætu tekið upp tvöfalt gengi eins og nú er stefnt að, menn gætu tekið upp skattlagningu eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur bent á og menn gætu tekið upp ríkisverðbréf sem eru bæði til sölu í gengi og krónum. Það eru ýmsar leiðir til en mér finnst menn ekki hafa skoðað þær, menn eru hræddir af því að þeir treysta ekki krónunni og treysta ekki sjálfum sér.

Ég spyr hv. þingmann: Hefur hv. þm. Helgi Hjörvar sannfæringu fyrir því að setja í lög reglur um gjaldeyrishöft?