139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að um það hafa verið skiptar skoðanir hvort nauðsynlegt sé að lögfesta þessi höft með þeim hætti sem hér er lagt til eða ekki. Það kom fram í upphafi að Seðlabankinn taldi sig þurfa að fá sterkari lagastoð undir þau höft sem hann beitir.

Þau byggja að sjálfsögðu á bráðabirgðaákvæði í lögum sem rennur út 31. ágúst næstkomandi þannig að það þarf að taka á því með einhverjum hætti. Ef það verður ekki gert eins og lagt er til í frumvarpinu þarf alla vega að búa þannig um hnútana að þær reglur sem Seðlabankinn miðar við hafi lagastoð.

Ég vil líka segja að lögfestingu þessara reglna er ekki ætlað að tefja fyrir losun gjaldeyrishaftanna eins og áætlun ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir. Ég tel mikilvægt að hnykkja á því. Það er gert í nefndaráliti og það er líka gert með sérstakri breytingartillögu þar sem lagt er fyrir efnahags- og viðskiptaráðherra að leggja fram á Alþingi skýrslu reglulega um afnám gjaldeyrishaftanna þannig að Alþingi sé upplýst um hvernig það gengur og geti haft á því skoðanir.