139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, mér og mörgum félaga minna leið ekki vel að standa að því að koma gjaldeyrishöftunum á. Eins og hv. þingmaður man áttum við orðaskipti um það á fjórða tímanum þessa nótt og þar sagði ég og lagði þunga áherslu á það að ég liti svo á að þarna væri um að ræða fullkomna neyðarráðstöfun við erfiðar og afbrigðilegar aðstæður (BJJ: Tímabundið.) — og tímabundið, eins og hv. þingmaður bendir á. Það voru forsendurnar fyrir því að ég og félagar mínir studdum það frumvarp sem varð að lögum á þessum tímapunkti.

Það er rétt varðandi lagastoðina, ég mun koma nánar inn á það á eftir. En ég hygg að meðal þess sem knýr á af hálfu ríkisstjórnarinnar um að fá frumvarpið í gegn séu áhyggjur af því að sú lagastoð sem nú er fyrir hendi sé ekki nægilega traust. Þess vegna m.a. þrýsti hún á að frumvarpið nái fram að ganga.