139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[21:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég taka fram að nú eru þeir þrír stjórnarandstöðuflokkar sem eru hér á þingi, að viðbættum tveimur óháðum þingmönnum, ekki í þeirri stöðu að þeir hafi gert með sér samkomulag um að starfa saman að einu eða neinu. Staða stjórnarandstöðunnar er að þessu leyti mjög ólík stöðu ríkisstjórnar þar sem menn hafa gert stjórnarsáttmála og bundist samtökum um að hrinda tilteknum málefnum í framkvæmd.

Stjórnarandstaðan hefur ekkert slíkt samkomulag gert og er að engu leyti bundin af því að starfa saman þó að þannig sé oft. Þó að aðstæður séu oft með þeim hætti að stjórnarandstöðuflokkar eigi samleið þarf engum að koma á óvart að stjórnarandstöðuflokkar hafi ólíka sýn á mismunandi málefni, það þekkir hv. þingmaður eftir langa veru í stjórnarandstöðu.

Staðan varðandi þetta mál er að ég hygg að enginn í þessari umræðu og fáir í þjóðfélaginu hafi beinlínis lagt það til að gjaldeyrishöftunum yrði öllum svipt burt í einu vetfangi og fyrirvaralaust. Ég hygg að svo sé ekki, ég held að allir séu að tala um að feta sig þá braut en greinarmunurinn á milli sjónarmiða manna snýst um hvernig og hve hratt. Ég játa að þegar ég horfi á það frumvarp sem hér liggur fyrir hef ég áhyggjur af því að það gerist allt of lítið allt of hægt.