139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[22:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi umræða hefur náttúrlega verið með slíkum endemum að óhjákvæmilegt var annað en að skýra út fyrir þeim sem hlusta að þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal var í meiri hluta á Alþingi og bar ábyrgð á stjórn landsins lagði hann sjálfur til lögfestingu gjaldeyrishafta til margra ára og greiddi því atkvæði. Hér er ekki verið að lögfesta gjaldeyrishöft, þau voru lögfest árið 2008. Hér er verið að framlengja gildistíma þeirra laga.

Það er síðan mikið fagnaðarefni að eftir þennan tíma undir forustu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur ríki svo mikil bjartsýni um að við getum unnið okkur endanlega út úr þessu á miklu skemmri tíma en við í stjórninni teljum mögulegt. En ég tel að óábyrgt sé að fullyrða um það á þessu stigi og tel óhjákvæmilegt að við látum reyna á uppboð Seðlabankans og sjáum hversu mikið af snjóhengjunni, 460 milljörðum, vill úr landi. Tilfellið er að þegar 460 milljarða (Forseti hringir.) snjóhengja er öðrum megin dugar ekki trúin ein hinum megin þó að trú þín sé mikil, Pétur H. Blöndal.