139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

þingmál í tengslum við Sóknaráætlun 20/20.

766. mál
[13:32]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og þingheimi er kunnugt og fram kom raunar í máli hv. fyrirspyrjanda dagaði sóknaráætlun til eflingar atvinnulífs og samfélags um land allt uppi á Alþingi á 138. löggjafarþingi. Afar brýnt var talið að þráðurinn í þessu viðamikla verkefni slitnaði ekki við það, enda hafði mikill fjöldi manna um land allt tekið þátt í undirbúningsvinnu við gerð sóknaráætlunar fyrir alla landshluta. Í ljósi þess var ákveðið að nýta þá miklu vinnu sem þegar hafði verið innt af hendi með þátttöku almennings og hagsmunaaðila um land allt og málið því sett í vinnufarveg innan Stjórnarráðsins sem ég mun nú gera grein fyrir.

Árið 2009 réðust stjórnvöld í greiningar- og stefnumótunarferli undir merkjum sóknaráætlunar þar sem unnið var úr niðurstöðum átta þjóðfunda þar sem leitað hafði verið eftir sérstöðu landshluta og sóknarfærum þeirra. Við sóknaráætlunarvinnuna var haft samráð við á annað þúsund einstaklinga sem margir voru fulltrúar stofnana, stjórnmálaflokka, sveitarstjórna, félagasamtaka, fyrirtækja og hagsmunaaðila. Úr þessari vinnu varð síðan stefnumarkandi skjalið Ísland 20/20. Á níunda áratugnum var svipuð stefnumörkun sett fram undir heitinu „Nýskipan í ríkisrekstri“ sem beindist einkum að umbótum í ríkisrekstri. Ísland 20/20-stefnan verður líkt og stefnumörkun um nýskipan í ríkisrekstri á sínum tíma ekki lögð fram sem sérstakt þingmál. Öðru máli mun hins vegar gegna um þær aðgerðir sem þegar hafa verið skilgreindar á grundvelli stefnunnar og aðrar aðgerðir sem ráðist verður í á næstu árum til þess að nálgast markmiðin.

Stefnumörkun Ísland 20/20 byggist á 20 mælanlegum markmiðum sem verða leiðarljós í vinnu ráðuneytanna á næstu árum. Hugmyndin er sú að allar stefnur og aðgerðir ríkisins eigi í grunninn að taka mið af Ísland 20/20. Það vinnulag að kalla eftir aukinni þátttöku almennings að stefnumörkun líkt og sóknaráætlunarferlið um land allt gerði og endurspeglast nú í Ísland 20/20 er framtíðarfyrirkomulag, en því þarf að fylgja eftir með aukinni þátttöku almennings í verkefnum sem tengjast munu Ísland 20/20.

Það er því verkefni stjórnvalda við vinnu við þær 30 aðgerðir sem þegar hafa verið skilgreindar og aðrar aðgerðar á grunni Ísland 20/20 að virkja almenning í gegnum til dæmis sveitarstjórnir og frjáls félagasamtök til að vinna að þeim í sameiningu. Það er mikilvægt að undirstrika afrakstur þeirrar vinnu sem ég hef hér greint frá og mun meðal annars fela í sér fjölda lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna á komandi mánuðum og árum þar sem stigin verða markviss skref í átt að aukinni velferð, sjálfbærni og þekkingu í íslensku samfélagi líkt og lagt var upp með í stefnunni. Aðkoma Alþingis verður því afar mikilvæg á næstu missirum og árum enda þótt farvegurinn hafi breyst. Dæmi um slík þingmál sem tengjast munu áformum um endurskoðun á þeim stefnum og áætlunum sem ríkið vinnur að í dag er lögfesting alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem ekki hafa enn verið fullgiltir, fjárfestingaráætlun og margt fleira.

Líkt og ég nefndi áður eru þessi verkefni á herðum mismunandi ráðuneyta og það er á ábyrgð einstakra ráðherra að undirbúa þessi mál. Forsætisráðuneytið fylgist með framvindu stefnunnar og ber ábyrgð á innleiðingu hennar, en áformað er að á hverju ári verði gefin út stöðuskýrsla um það hvernig okkur miði á þeirri vegferð að ná þeim markmiðum og áformum sem boðuð eru í stefnuskjali Ísland 20/20, auk þess sem hægt verður að fylgjast með stöðu einstakra markmiða á heimasíðu forsætisráðuneytisins.

Ég mun síðan kynna Alþingi stöðuskýrslur þegar þær hafa verið settar fram og vonast til að geta átt um þær málefnalegar umræður um framtíð íslensks samfélags. Það er því von mín og trú að framgangur stefnunnar komi reglulega til umfjöllunar á vettvangi þingsins, bæði í heild sinni og í tengslum við afmörkuð mál.

Í stuttu máli má því segja að fyrirkomulagið sé með þeim hætti að umtalsverð undirbúningsvinna er nú innt af hendi með mjög skipulegum hætti en síðan verða þingmál lögð fyrir Alþingi stig af stigi, ýmist lagafrumvörp eða þingsályktunartillögur, eftir því sem málinu vindur fram.