139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

endurskoðun aflareglu við fiskveiðar.

758. mál
[14:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er rætt um aflaregluna. Það verður að segjast eins og er að það hefur verið sérkennilegt að fylgjast með því hvernig ríkisstjórnin og sjávarútvegsráðherra og ráðuneytið hafa túlkað eða leikið sér með þessa aflareglu í raun. Í því frumvarpi sem nefnt var áðan var allt þar til í gær ákveðið eða sú túlkun var í frumvarpinu að það ætti að fara út fyrir aflaregluna. Það kom hins vegar ný túlkun í gær hjá nefndinni og það sést á umsögnum þeirra fjölmörgu sem sendu inn umsagnir að þeir túlkuðu þetta með sama hætti og ráðuneytið gerði þangað til í gær.

Ég vil þó segja, frú forseti, að það er mikilvægt að aflaregla sé til staðar en það þarf að vera sveigjanleiki í henni. Það þarf að vera sveigjanleiki til að geta brugðist við efnahagsástæðum en það hefur núverandi ríkisstjórn algerlega mistekist eins og við vitum.

Að endingu vil ég segja, frú forseti, að þegar hæstv. ráðherra kallar hér fram í að ákvörðun um aflareglu hafi verið tekin af ráðherra og ríkisstjórn hlýtur hið sama gilda um aðrar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar líkt og árásina á Líbíu.