139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

eyðibýli.

853. mál
[14:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ef ég man rétt eru á þriðja þúsund íslenskra bújarða í eyði. Víða standa eftir eyðibýli, mannvirki sem bera vott um þetta. Á undanförnum árum og áratugum hafa þau hins vegar verið að týna tölunni, mörg verið brennd eða þeim rutt niður með stórvirkum vinnuvélum, en þó að þessar byggingar séu auðar og yfirgefnar í mörgum tilvikum hafa þær þó fjölþætt gildi. Í fyrsta lagi eru þær áminning um stöðu landbúnaðarins. Þær eru áminning um að hlutirnir séu ekki alveg eins og við vildum helst hafa þá og hvatning um að við eflum og byggjum upp landbúnað í landinu. Þær eru líka sögulegar minjar, bera vott um langa og merkilega sögu og gefa umhverfinu aukið gildi.

Ég var í Manitoba í Kanada á slóðum Vestur-Íslendinga fyrir ekki svo löngu. Þar hefur gömlum býlum, eyðibýlum Íslendinganna, verið leyft að standa áfram. Mörg þeirra eru reyndar að hruni komin og sum algjörlega hrunin. Auðvitað þarf að huga að öryggissjónarmiðum, að fólki stafi ekki hætta af býlunum, en það er vel hægt að gera það. Menn leyfa hins vegar þessum mannvirkjum eða mannvistarleifum að standa áfram sem minnismerki um horfna tíð. Það gefur svæðinu aukið gildi að sjá húsin sem Íslendingarnir reistu sér þegar þeir komu til nýja heimsins.

Það sama á við á Íslandi. Þetta gefur landslaginu aukið gildi og vekur athygli bæði innlendra og erlendra ferðamanna. Það er mjög algengt að ferðamenn taki myndir af þessum yfirgefnu húsum og til að mynda í ljósmyndabókum þar sem náttúra landsins er sýnd eru iðulega teknar myndir af þessum mannvistarleifum vegna þess að þessi minnismerki um veru mannsins í náttúrunni og þá sögu sem þar varð til gefa náttúrunni aukið gildi. Fallegt landslag fær aukið gildi með þessari sögulegu tengingu því að þó að víða í heiminum sé að finna mjög fallegt landslag hefur náttúra Íslands aukið gildi vegna þeirrar sögu sem þar hefur orðið.

Því spyr ég hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Hversu mörg eyðibýli hafa verið rifin, brennd eða fjarlægð með öðrum hætti frá byrjun árs 1990 til dagsins í dag? Á hvaða jörðum og hvenær voru hús fjarlægð á umræddu árabili?