139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

eitt innheimtuumdæmi.

744. mál
[15:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég get í rauninni svarað með svipuðum hætti því afstaða ráðuneytisins kemur fram í viðbrögðum þess við ábendingum Ríkisendurskoðunar sem ráðuneytið fékk til umsagnar þegar skýrslan var í drögum. Í því svari fjármálaráðuneytisins segir m.a., með leyfi forseta:

„Fjármálaráðuneytið fagnar úttekt Ríkisendurskoðunar á innheimtu opinberra gjalda enda um að ræða veigamikinn þátt í tekjuöflun ríkissjóðs. Það er almennt mat ráðuneytisins að margar athyglisverðar ábendingar sé að finna í skýrsludrögunum. Mun ráðuneytið taka þær til umræðu og nákvæmrar skoðunar þegar endanleg skýrsla liggur fyrir hjá stofnuninni, jafnframt því að leita leiða til að koma til móts við þær svo fljótt sem kostur er. Ljóst er að það verkefni kallar á viðræður við innanríkisráðuneytið um verkefni sýslumanna sem í dag eru jafnframt innheimtumenn.“

Skýrsla Ríkisendurskoðunar var held ég óbreytt frá þeim drögum sem við gáfum umsögn um þannig að þetta er afstaða okkar. Tillögur skýrslunnar, þar á meðal að gera landið að einu innheimtuumdæmi, eru mjög áhugaverðar og við ætlum að skoða þetta vandlega og ræða að sjálfsögðu við þá aðila sem það varðar mest, fyrir utan fjármálaráðuneytið og stofnanir sem á ábyrgð þess, þ.e. innanríkisráðuneytið og sýslumannsembættin.

Ég mundi hiklaust segja að almennt sé reynsla fjármálaráðuneytisins góð af því að sameina og gera landið að einu umdæmi. Það var gert varðandi tollinn fyrir alllöngu síðan, síðan er skatturinn eitt umdæmi frá áramótum 2010. Ég held að reynslan sé tvímælalaust góð í báðum tilvikum, t.d. hefur það sýnt sig í tilviki skattsins að þetta þarf síður en svo að vera á kostnað starfseminnar sem er dreifð út um landið. Í mörgum tilvikum hefur frekar verið hægt að efla hana en hitt á grundvelli verkaskiptingar sem auðveldara er að koma við þegar um eitt umdæmi er að ræða.

Ég vil ganga svo langt að segja að ég tel fyllilega koma til greina að skoða málefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga í leiðinni. Ég held við eigum einmitt að reyna að hagræða í þessum efnum eins og kostur er, nýta okkur nýjustu og bestu tækni og gera hlutina með eins skilvirkum hætti og mögulegt er.

Ég vil þó segja því fyrirkomulagi til varnar sem enn er við lýði eða hefur verið lengi að þar hefur líka orðið heilmikil þróun. Þó það sé rétt í sjálfu sér að við séum með tollinn og meira en 20 sýslumannsembætti er það auðvitað alls ekki þannig að hvert og eitt sýslumannsembætti annist innheimtu á öllum sköpuðum hlutum. Í auknum mæli hefur þar orðið verkaskipting þannig að tiltekin sýslumannsembætti í landinu hafa tekið að sér innheimtu ákveðinna þátta fyrir allt landið. Þar er því í gangi þróun og talsverð verkaskipting sem tvímælalaust hefur leitt til hagræðingar í innheimtunni sem slíkri og um leið gert litlum embættum kleift að fullnýta mannafla sinn og aðstöðu. Umtalsverður hluti starfsemi allmargra sýslumannsembætta tengist núna sérhæfðum verkefnum sem þau hafa tekið að sér.

Ég er engu að síður þeirrar skoðunar að rétt og skylt sé að skoða þetta rækilega. Við höfum fullan hug á að gera það og ræða við viðkomandi aðila og jafnvel innanríkisráðuneytið fyrir hönd sýslumannsembættanna og einnig sveitarfélögin vegna Innheimtustofnunar sveitarfélaga.