139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[10:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í ljósi þeirrar orðræðu sem var hér áðan verður að viðurkennast að það er kannski ekki beint til að liðka fyrir þingstörfum að ekki skuli vera hægt að upplýsa nægilega vel hvaða umræða átti sér stað í samgöngunefnd um þetta mál. Það liggur ljóst fyrir að ákveðnir þingmenn höfðu aðrar skoðanir, og hv. þm. Björn Valur Gíslason benti á að það þyrfti einfaldlega að spyrja þá. Því mælist ég til þess að þeir þingmenn sem um ræðir, eða hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem er þingflokksformaður Samfylkingarinnar, komi hér til þess að gera grein fyrir þeim ólíku sjónarmiðum sem hafa greinilega komið upp innan samgöngunefndar. Mér þætti vænt um að þetta verði rætt hér án þess að menn fari í einhvern vígahug.

Hvað má ekki ræða? Af hverju má ekki ræða þessi mál og fara yfir skoðanir sem við vitum að eru skiptar og blendnar? Ég sit ekki í samgöngunefnd. Ég vil gjarnan fá upplýst hvaða (Forseti hringir.) umræða hafi átt sér stað innan samgöngunefndar. Þess vegna fer ég þess á leit við hæstv. forseta að þingflokksformaður Samfylkingarinnar verði boðaður hingað í þingsal.