139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú verð ég að viðurkenna að ég er ekki mjög þjálfaður í svona málþófsæfingum eins og ég hélt að færu hér fram, en í ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar sem hann eyddi um 13 mínútum af í að ræða um annað mál en það sem er á dagskrá komu þó fram ákveðnar spurningar, m.a. út af hverju ekki hefði verið eignarnámsákvæði í lögunum þegar þau voru samþykkt í fyrra. Það var ekki talin ástæða til þess, það voru vissulega skoðuð fordæmi í sambærilegum framkvæmdum en síðan þegar á reyndi var talið rétt að grípa til þessara aðgerða. Hv. þingmaður var mér sammála um það í nefndinni. Ef ég man rétt var hv. þingmaður þeirrar skoðunar að það ætti að ganga lengra í þessum eignarnámsheimildarákvæðum og festa þau frekar í sessi en hér er gert þannig að ekki þyrfti að leita sérstakra heimilda í tilfellum sem þessum. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef það er ekki rétt.

Hv. þingmaður segist sömuleiðis spyrja sig spurninga varðandi það að framkvæmdir eru ekki hafnar en viðræður farnar af stað. Eðli málsins er að viðræður fara af stað áður en framkvæmdir eru hafnar, eða hvað? Er það ekki þannig sem við gerum hlutina? Reynum við ekki að hefja viðræður við landeigendur og semja áður en við förum í framkvæmdir? Ég hélt (Gripið fram í.) að það væri þannig sem hlutirnir gerðust og þess vegna er þetta svoleiðis.

Það sem vakti samt athygli mína og mig langar til að spyrja hv. þingmann um er hvort þetta mál, eignarnámsheimild til að fara í þessar framkvæmdir upp á hátt í 40 milljarða kr. sem skipta samfélagið gríðarlegu máli, hafi vakið upp þær efasemdir í huga hans um lagafrumvarpið frá 2010 að hann telji rétt að hætta við þær. Vill hann draga þessar hugmyndir til baka? Það var ekki hægt að ráða annað af máli hans áðan þegar hann sagðist hafa efasemdir um málið, efasemdir um framkvæmdirnar og sagði að vaknað hefðu margar spurningar sem þyrfti að ræða. Er hv. þingmaður sem var eini þingmaður (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins sem studdi málið á þingi í fyrra hættur stuðningi við þær vegaframkvæmdir sem voru samþykktar á Alþingi (Forseti hringir.) í fyrra?