139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[21:30]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi geta þess að samhengi væri í þessum málum vegna þess að þau ofbeldisverk sem hér er verið að taka sérstaklega á eru flest framin undir áhrifum áfengis og vímuefna. Það kom fram í umfjöllun Kastljóss á dögunum að kostnaður vegna vímuefnanotkunar hleypur á tugum milljarða, hann er líklega 80 milljarðar á ári. Við vitum líka að allur meginþorri kostnaðar vegna löggæslu er til kominn vegna löggæslu að næturlagi og um helgar í þéttbýliskjörnum. Á öðrum tímum vikunnar er lítið álag. Ég er því einfaldlega að benda á samhengi málsins, þ.e. vímuefnaneyslu í samfélaginu.

Í mínum huga er ljóst að skýrara bann við áfengisauglýsingum mun ekki eitt og sér leysa það vandamál. En það er liður í stærra samhengi. Það er liður í því að við sem einstaklingar og ábyrgir meðlimir samfélagsins og sem uppalendur séum meðvituð um áhrif slíkra skilaboða til ungra barna og unglinga og hvernig þau eru hluti af heildarmyndinni.

En það er ekki aðalatriðið í þessu máli. Þetta er mikilvægt baráttumál sem þokast hér einu skrefinu lengra í að verða að lögum. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fagna því og tek undir með henni.