139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[21:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Örstutt. Ég undirstrika samstöðu mína með málefninu sem við ræðum núna. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við verðum auðvitað að líta á umræðuna í stærra samhengi og hvert stefnir í áfengis- og vímuefnaneyslu. Ég held hins vegar ef menn ætla að nota þetta mikilvæga mál um nálgunarbann sem réttlætingu á því að afgreiða frumvarpið sem hæstv. innanríkisráðherra mælti fyrir varðandi takmarkanir á auglýsingum á áfengi þá sé það ekki rétt leið. Sú leið sem hæstv. innanríkisráðherra fer í því máli lýsir ekki bara vantrú á samfélaginu heldur einnig vantrú á að einstaklingar geti tekið ákvörðun fyrir sjálfa sig. Af því að við höfum rætt austurríska leið í tengslum við nálgunarbannið þá finnst mér að við eigum miklu frekar að líta til sænsku leiðarinnar um áfengisauglýsingar og vinna þetta frekar með fyrirtækjum, sem hefur gefið góða raun í Svíþjóð, frekar en að fara þessa dæmigerðu vinstri leið um boð og bönn. Það eru náttúrlega í megindráttum vinstri menn sem hafa verið á þessari sérstöku tillögu um sölu tóbaks í apótekum. (Gripið fram í.)

Ég vara eindregið við því að fara þá leið að segja bara „það má ekki gera þetta og má ekki gera hitt“ til að koma í veg fyrir áfengisneyslu. Höfum aðeins meiri trú á samfélaginu og einstaklingunum en það og reynum frekar að gera þetta í samvinnu við heimilin og líka fyrirtækin, m.a. íslenska framleiðendur sem munu að öllu óbreyttu verða sérstaklega og miklu frekar en erlendir framleiðendur fyrir tjóni af þessari tillögu sem menn ætla sér hugsanlega að afgreiða. Hugsum þetta því aðeins stærra og öndum aðeins rólegar.

Það er hægt að vinna gegn áfengis- og vímuefnaneyslu ef menn fara bara rétt í það. Það hefur reynslan sýnt. Hægt er að fara í forvarnir með markvissum árangri. Boð og bönn eiga (Forseti hringir.) ekki að vera fyrsta val í hvert sinn sem farið er af stað í svona leiðangur.