139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. forseta flyt ég nefndarálit í fjarveru hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Þetta er nefndarálit um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum eins og fram hefur komið hjá öðrum ræðumönnum. Í því stendur:

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt, lögum um virðisaukaskatt og fleiri lögum í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var í tengslum við undirritun kjarasamninga 5. maí sl.

Annar minni hluti gagnrýnir harðlega hversu seint frumvarpið er lagt fram og hvernig það hefur verið unnið í þinginu. Málshraðinn hefur verið mjög mikill og blandað er saman breytingum á gjörólíkum lögum, þ.e. lögum um tekjuskatt, lögum um virðisaukaskatt, lögum um gjald af áfengi og tóbaki, lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Að mati 2. minni hluta hefur þingið ekki fengið þann tíma sem nauðsynlegur er til að vinna málið vel og vandlega og er það skoðun 2. minni hluta að slíkt sé algjörlega óásættanlegt.

Í 2., 4. og 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um sérstakt skatthlutfall fyrir þann hluta arðs sem skattleggja á sem laun. Árið 2009 var gerð sú breyting á 11. gr. tekjuskattslaga að fari heimil arðsúthlutun samtals yfir 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi félags telst það sem umfram er til helminga laun og arður þegar móttakanda hans ber stöðu sinnar vegna að reikna sér endurgjald í samræmi við 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr., samanber 58. gr. laganna. Sú breyting hefur verið mikið gagnrýnd, m.a. hvað teljist vera ráðandi aðili. Breytingar meiri hluta nefndarinnar gera ráð fyrir því að viðbótartekjur muni falla í lægsta tekjuskattsþrep. Mikilvægt er að á milli 2. og 3. umr. verði fulltrúar ríkisskattstjóra fengnir til þess að koma með álit sitt á þessari breytingartillögu. 2. minni hluti bendir enn fremur á að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæðin komi til framkvæmda 1. janúar 2010. Að mati 2. minni hluta mun það óhjákvæmilega hafa í för með sér óeðlilega afturvirkni þar sem ljóst er að leiðrétta þarf staðgreiðsluskil og framtal þeirra sem ákvæðið nær til.

Annar minni hluti fagnar þeim breytingum sem gerðar eru í 6. gr. frumvarpsins. Með því að kveða á um að persónuafsláttur skuli í upphafi hvers árs taka breytingu í réttu hlutfalli við mismun á vísitölu neysluverðs við upphaf og lok næstliðins 12 mánaða tímabils er komið til móts við þá verðlagsþróun sem orðið hefur í landinu. 2. minni hluti bendir hins vegar á að persónuafslátturinn hækkaði ekkert um síðustu áramót og kom það hvað harðast niður á láglaunafólki og þeim sem þiggja bætur almannatrygginga.

Annar minni hluti bendir á að með þeim breytingum sem lagðar eru til á skattlagningu lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja mun enn frekar aukast misvægið á milli réttinda starfsfólks á almennum vinnumarkaði annars vegar og starfsfólks hjá hinu opinbera hins vegar.

Eins og fram hefur komið, frú forseti, er lagt til að fresta ákveðnum hlutum eða í það minnsta gera ákveðnar breytingar og skoða í haust. Síðan kemur fram á bls. 2 þessa nefndarálits:

Samkomulag ríkisstjórnarinnar við lánastofnanir, Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði um víðtækar aðgerðir vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna fól meðal annars í sér aukningu vaxtabóta. 2. minni hluti telur að ákvæði 9. og 15. gr. frumvarpsins muni ekki koma að fullu til móts við skuldug heimili og fyrirtæki. Ríkisstjórnin mun þannig ekki standa við áðurnefnt samkomulag þar sem svigrúm verður enn til staðar að hækka skatthlutfallið meira. 2. minni hluti gagnrýnir að þrátt fyrir ríkisstjórnin hafi endurreist bankana með miklum afföllum af lánasöfnum halda fjármálafyrirtækin áfram að rukka einstaklinga og heimili um 100% hlutfall af skuldum. Ríkisstjórnin hefur þannig tekið sér stöðu með fjármálastofnunum og eigendum þeirra, sem eru erlendir kröfuhafar, í stað þess að verja heimili landsins sem hafa þurft að glíma við óleiðrétt lán og síhækkandi verðbólgu undanfarin ár. Jafnframt er rétt að benda á að gangi þetta eftir er með þessum tillögum verið að skattleggja lífeyrissjóði og fjármálafyrirtæki um 2,5 milljarða kr. til að fjármagna sérstaka vaxtaniðurgreiðslu um 6 milljarða kr. Eins og fram hefur komið er hugmyndin þó að fresta þessu ákvæði.

Hér kemur síðan fram, frú forseti, að 2. minni hluti gagnrýnir vinnubrögð við umfjöllun málsins harðlega. Málið var seint lagt fram og málshraðinn hefur verið mikill. Frumvarp sem átti að vera lagt fram vegna nýgerðra kjarasamninga breyttist yfir í að vera samansafn breytinga á ólíkum lögum. 2. minni hluti áréttar að 10., 11., 12. og 13. gr. eiga alls ekki heima í frumvarpinu og lýsir jafnframt yfir óánægju með það í hversu miklum flýti frumvarpið var greinilega unnið. Til marks um hversu hroðvirknislega frumvarpið var unnið bendir 2. minni hluti á að heiti laganna eins og þau voru þegar þetta er skrifað er vitlaust. Rétt heiti laganna er lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en í frumvarpinu bera þau heitið lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrisréttinda. Þetta ber að sjálfsögðu vott um að einhverjir hafi verið að flýta sér of mikið.

Annar minni hluti bendir á að frumvarpið sem átti upphaflega að snúa að málum tengdum gerð kjarasamninga felur einnig í sér aðrar breytingar sem í raun snúa ekki að kjarasamningunum. Þannig er fjölmörgum öðrum atriðum smyglað með, ef það má orða það þannig. Var það skoðun 2. minni hluta að ákvæði IV. kafla, þ.e. breytingar á lögum nr. 125/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, eigi ekki heima í frumvarpinu. Þær breytingar snúa að leiðréttingum á mistökum sem gerð voru með lögum nr. 165/2010, um breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Í athugasemdum við frumvarpið sem hér er til umfjöllunar kemur fram að eingöngu er um að ræða lagfæringu á texta en ekki efnisbreytingu. 2. minni hluti telur að um leið og mistökin voru uppgötvuð hefði átt að flytja frumvarp til leiðréttingar á þeim í stað þess að koma þeim fyrir í frumvarpi sem flutt er vegna nýrra kjarasamninga.

Í 16. gr. frumvarpsins er lagt til að greiðsluskylda atvinnurekenda og lífeyrissjóða í Starfsendurhæfingarsjóð verði lögbundin tímabundið. Vísað er til þess í ákvæðinu að velferðarráðherra og ráðherra lífeyrismála eigi að skipa samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að koma með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingar fyrir 1. nóvember nk. 2. minni hluti bendir á að með ákvæðinu sé verið að lögfesta undirbúning að ramma sem liggi ekki fyrir. Slíkur rammi á betur heima í samkomulagi en ekki löggjöf og þar að auki hefur við umfjöllun nefndarinnar komið í ljós að dagsetningar í ákvæðinu munu engan veginn standast. Það er því skoðun 2. minni hluta að það sé með öllu óásættanlegt að Alþingi samþykki ákvæðið í ljósi þeirrar óvissu sem er um málið.

Frú forseti. Það er meira til umfjöllunar í þessu nefndaráliti og vísa ég til þess um þau atriði. Ég vil þó að endingu undirstrika að það er ámælisvert hvernig málin eru unnin á vegum þessarar ríkisstjórnar undir lok þings þegar mikið liggur við að klára mál er snúa til dæmis að kjarasamningum. Þá er komið inn mjög seint með frumvarp sem inniheldur mun fleiri hluti en akkúrat það að sinna því sem átti að sinna gagnvart kjarasamningunum. Tíminn sem hefur verið til skrafs og ráðagerða um þessi mál er að sjálfsögðu allt of lítill.

Þá er mikilvægt að árétta að það er mjög sérstakt að ekki sé enn þá búið að taka að fullu á þeirri mismunun sem hefur verið á heimilum og fyrirtækjum landsins og kröfuhöfum sem kemur svo greinilega fram í þeirri skýrslu sem hæstv. fjármálaráðherra kynnti ekki alls fyrir löngu um endurreisn bankanna. Við erum enn að horfa upp á það að eftir er að bæta, vil ég segja, og laga stöðu þeirra heimila sem urðu fyrir skakkaföllum, vitanlega langflest heimili landsins. Það er ekki búið að leiðrétta þau lán sem hækkuðu óeðlilega mikið, stökkbreyttust í raun, og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til duga ekki nægilega vel.

Frú forseti. Það er engu að síður mikilvægt að kjarasamningar séu ekki settir í uppnám hver svo sem skoðun okkar kann að vera á þeim, vinnunni í kringum þá og hvernig þeir aðilar hafa staðið sig sem komu að þeirri smíði.

Ég lýk máli mínu um þetta nefndarálit en tel líklegt að nefndin eigi eftir að funda aftur um málið og fara yfir innihald þess.